Ari Trausti: VG þakkar fyrir sig í Suðurkjördæmi

Við öll skulum ekki eyða miklum tíma í að leita að sigurvegara kosninganna og rökstyðja valið.

Sitt sýnist hverjum og einum. Fyrir okkur í VG skiptir mestu máli að staða hreyfingarinnar í pólitíska landslaginu er góð og við náðum gleðilegum árangri í Suðurkjördæmi, svo dæmi sé tekið. Hann er ákall um að VG geri allt sem unnt er í valdi hreyfingarinnar til að bæta lífskjör íbúanna og búa í haginn fyrir breytingar á deiliskipulagi auðs og valda, og líka fyrir margþætt átak í umhverfis- og loftslagsmálum.

Telja má að vegferð stjórnarflokkanna tveggja í kosningunum, með um 40% kjörfylgi, og svo 60% atkvæða greidd öðrum framboðum, merki að stór hluti landsmanna hafnar harðri hægri stefnu sem hefur ríkt á kostnað félagshyggju um árabil. Úrslitin merkja einnig að mörg okkar krefjast viðsnúnings og samhjálpar. Við viljum að bætt sé strax fyrir niðurskurð fjár til samfélagsþjónustunnar, nú þegar þokkalega árar, og enn fremur að horft í alvöru sé til jöfnuðar og jafnréttis. Það nægir að nefna málefni heilslugæslu og sjúkrahúsa og brýnar úrbætur í öldrunarþjónustu jafnt sem kjarabætur til handa örykjum og eldri borgurum. Eða á að nefna menntamál og samgöngur? Húsnæðismál…?

Nú í blábyrjun nóvembermánaðar er óljóst hvernig fer um myndun ríkisstjórnar en ljóst að margs konar málamiðlanir þarf til. Þingið verður að geta starfað á meðan og ef allt um þrýtur verður kosið á ný. Vinstri-græn bera mikla ábyrgð á hvernig fer og verða að axla hana.

Við innan VG í Suðurkjördæmi þökkum fyrir stuðning og atkvæði og frambjóðendurnir þakka fyrir vinnu og allan atbeina sem gerði að verkum að kosningavinnan gekk upp með þeim árangri að þar er nú þingmaður hreyfingarinnar og öflugir varaþingmenn til taks. Í næstu umferð uppskerum við vonandi eins og sáð verður.

Ari Trausti Guðmundsson