Árborg er sveitarfélag sem laðar að fólk

Árborg er sveitarfélag sem laðar að fólk og sést það á mikilli uppbyggingu sem hefur átt sér stað undanfarin ár. Sjálf fluttist ég í Árborg fyrir um tólf árum síðan, frá Kópavogi þar sem ég er fædd og uppalin. Ég bý á Selfossi ásamt eiginmanni mínum og samtals eigum við 4 börn og 2 barnabörn.

Ég starfaði lengi í ferðaþjónustu hjá einum af stærstu ferðaþjónustuaðilum landsins. Á þeim tíma hafði Selfoss ekki upp á margt að bjóða fyrir ferðamenn, en ferðaþjónustan var öflugri við ströndina. Árborgarsvæðið hefur alla burði til að verða öflugt ferðaþjónustusvæði og höfum við hjá Framsókn í Árborg mikinn hug á að koma að þeirri uppbyggingu.

Undanfarin fimm ár hef ég starfað sem sérfræðingur á kjaramálasviði hjá VR stéttarfélagi. Þar sem 1. maí, baráttudagur verkalýðsins, er á næstu grösum er ekki úr vegi að nefna mikilvægi þess að sveitarfélagið tryggi örugga búsetu og atvinnu fyrir íbúa sína. Það að tryggja fjölbreytta flóru fyrirtækja og stofnana á svæðinu hækkar laun og eykur möguleika á atvinnu í heimabyggð. Aukin atvinna í heimabyggð eykur lífsgæði, hún eykur þann tíma sem fjölskyldan getur notið saman og eykur velsæld í sveitarfélaginu.

Kolbrún Júlía Erlendsdóttir
Sérfræðingur á sviði kjaramála hjá VR og skipar 8. sæti á lista Framsóknar í Árborg.

Fyrri greinSelfoss í undanúrslit eftir tvíframlengdan leik
Næsta grein„Til mikils að vinna ef hægt er að gera verðmæti úr hráefnum sem annars er sóað“