Aníta Þorgerður: Málefni aldraðra og fatlaðra

Framboð fólksins er listi óháðra í Rangárþingi eystra. Listinn samanstendur af metnaðarfullu fólki sem vill leggja sig fram til að bæta hag íbúa sveitarfélagsins.

Ein af okkar aðal áherslum eru málefni aldraðra og fatlaðra.

Á Hvolsvelli er rekið hjúkrunar- og dvalarheimilið Kirkjuhvoll þar sem nú eru þrjátíu og þrír heimilismenn. Kirkjuhvoll hefur leyfi fyrir þrettán dvalarrýmum, tveimur dagvistunarrýmum og tuttugu hjúkrunarrýmum (þar af eru þrjú tímabundin). Heimilið nær ekki að sinna eftirspurn og eru margir á biðlista eftir því að komast bæði í hjúkrunarrými og dvalarrými.

Kirkjuhvoll
Framboð fólksins telur nauðsynlegt að stækka dvalar- og hjúkrunarheimilið og efla starfsemi þess. Það er ekki viðunandi að fólk þurfi að flytjast í burtu vegna ónógrar aðstöðu eða plássleysis en dæmi eru um það að fólk hafi flutt í aðra sýslu til að komast á hjúkrunar og dvalarheimili. Því þarf að bæta aðstöðu og fjölga hjúkrunar- og dvalarrýmum til frambúðar. Einnig þarf að bæta þjónustu fyrir þá sem vilja búa í öðru húsnæði en þurfa á þjónustu að halda. Því þarf að byggja fleiri íbúðir í kringum Kirkjuhvol, bæði fyrir aldraða og fatlaða. Við viljum að hjón og sambýlisfólk geti verið saman sem lengst þó annað þeirra þurfi á umönnun eða hjúkrun að halda.

Lífið og tilveran
Við teljum að málefnum fatlaðra sé ábótavant í sveitarfélaginu. Við viljum veita fötluðum einstaklingum þjónustu sem miðar að því að gera þeim kleift að lifa og starfa í eðlilegu samfélagi við aðra. Sérstaklega þarf að efla atvinnuþátttöku fatlaðra einstaklinga og nýta þá góðu hæfileika og starfsorku sem þar býr. Einnig viljum við efla kosti þeirra til fjölbreytts félagslífs því það er mikilvægt að allir einstaklingar geti fundið sér félagslíf við sitt hæfi, fatlaðir jafnt sem ófatlaðir.

Aníta Þorgerður Tryggvadóttir, skipar 7. sæti hjá Framboði fólksins – lista óháðra í Rangárþingi eystra.

Fyrri greinFramsókn með þrjá menn inni
Næsta greinSkrifað undir viljayfirlýsingu um flugsafn