Andrés Rúnar: Sátt við þjóðina sem á auðlindirnar

Sú ákvörðun Samtaka atvinnulífsins (SA) um að taka alla kjarasamninga í landinu í gíslingu til að knýja á um stefnu LÍÚ um afdrif kvótakerfisins, hefur ýtt við umræðu um auðlindastefnu í sjávarútvegi.

Nú hafa menn hátt um samningaleið eða sáttaleið og meint svik við hana. Hvað er sátt um og hvað er enn óleyst, hvað er samningaleið og hvaða aðrar leiðir er um að ræða? Ég geri hér tilraun til að skýra það á mannamáli í helstu atriðum. Tilefnið er að nú er bæjarstjórn Sjálfstæðismanna í Árborg að draga nafn sveitarfélagsins inn í þetta mál.

Vill samt fyrst segja að mér þætti það góð viðleitni bæjarstjórnar Árborgar til að draga úr óvissu um atvinnumál, að hún beitti sér fyrir því að gengið verði til samninga við opinbera starfsmenn án tafa.

Bæjarráð Árborgar samþykkti, þann 27. janúar, bókun vegna óvissu í málefnum sjávarútvegs. (Liður 9 – http://arborg.is/frettir/4816/) Skömmu síðar birtist undirritun formanns bæjarráðs Árborgar á yfirlýsingu forsvarsmanna 17 sveitarfélaga um sjávarútvegsstefnu. (http://www.pressan.is/Vidskipti/Lesavidskiptafrettir/sautjan-baejarstjorar-sameinast-um-sattaleid-i-sjavarutvegi—ekki-bara-eltast-vid-strigakjafta) Ég vek athygli á að bókun bæjarráðs og yfirlýsing sautjánmenninganna eru ekki samhljóða og verður því að líta svo á að yfirlýsingin hafi ekki verið samþykkt í bæjarráði Árborgar.

Bæði í bókun bæjarráðs og yfirlýsingu forsvarsmanna sveitarfélaganna sautján, er lýst stuðningi við samningaleið sem sem tekið var undir af meirihluta starfshóps um endurskoðun á lögum um stjórn fiskveiða, sem í daglegu tali hefur oft verið kölluð sáttanefndin.

Megin skýrslan er 96 blaðsíður auk 10 fylgiskjala og aðgengilega á vef sjávarútvegsráðuneytisins. Er mér til efs að nokkur bæjarfulltrúa okkar hafi lesið skýrsluna eða þekki til hennar nema af umsögnum. Sjálfur hef ég ekki lesið hana alla frá orði til orðs, en þó nóg til að koma með eftirfarandi athugasemdir.

Sátt um sumt og ágreiningur um annað
Þess er fyrst að geta að ekki kom endanleg tillaga frá sáttanefndinni, heldur voru þar dregin saman þau megin sjónarmið sem fram komu í nefndinni og hverjar undirtektir þær hlutu. Því var ljóst og kom skýrt fram við skil nefndarinnar, að þá átti eftir að útfæra endanlegar tillögur. Margt var sameiginlegt með þeim tveim megin línum sem fram komu í starfi nefndarinnar og kenndar hafa verið við samningaleið og tilboðsleið. T.d. að í stjórnarskrá verði sett ótvírætt ákvæði um eignarhald ríkisins/þjóðarinnar á fiskveiðiauðlindinni og að greitt verði fyrir nýtingarréttinn þannig að afraksturinn skili sér með beinum hætti til hins opinbera. Þá gerðu báðar leiðir ráð fyrir að hægt væri að úthluta hluta heildarafla sérstaklega til byggðarlaga, smærri útgerða og nýliða.

Ágreiningur var og er enn óleystur um mjög mikilvæga liði, þar á meðal um forgang núverandi kvótahafa, samningstíma, forgangsrétt til framlengingar samninga og verðmyndun á nýtingarréttinum. Þá á alveg eftir að taka á því, hvernig sem annars verður staðið að kvótaúthlutun, hvernig tekið skuli á framsali aflaheimilda með sölu eða leigu milli aðila og veðheimildum í kvótanum. Þetta síðast talda atriði hefur verið ein megin uppspretta óánægju með núgildandi kvótakerfi, sem með braski hefur valdið stórfelldum tilflutningi á atvinnu og auði milli landshluta og einstaklinga og valdið bæði mikilli byggðaröskun og skuldsetningu íslensks sjávarútvegs.

Umsamið verð eða markaðsverð
Í hinni svokölluðu samningaleið, er gert ráð fyrir tímabundnum samningum um fiskveiðirétt og annað hvort föstu verði fyrir hann eða breytilegu eftir því hvernig árar hverju sinni. Þar lagði LÍÚ áherslu á forgang núverandi kvótahafa að samningunum, samning til 45-60 ára, líkt og um orkuauðlindir, og forgang samningshafa að áframhaldandi samningum. Tekið er fram í skýrslu nefndarinnar að mjög skiptar skoðanir hafi verið um lengd samningstímans þar sem öðrum hafi þótt hann allt of langur og mörgum að 15-30 ár væri of langur tími líka. Þá var bent á að tímabundinn samningur skapaði alltaf óvissu þegar lok samningstímans nálgaðist, nema því aðeins að tímamörkin séu fyrirsláttur en forgangur að framhaldssamningi venjan.

Í hinni svokölluðu tilboðsleið, er gert ráð fyrir að núverandi kvótahafar hafi forgang að megin úthlutun fyrstu aflaheimilda, en greiði síðan fyrir veiðiréttinn með því að leggja 5-8% af aflamarki sínu í auðlindasjóð árlega. Þar yrði það aflamark boðið upp með tilboðum, eftir ákveðnum reglum, þar sem útgerðum gæfist kostur á að viðhalda, auka eða minnka aflahlutdeild sína, í samkeppni við aðrar útgerðir, gamlar og nýjar. Með þessu móti yrði enginn greinarmunur á gömlum og nýjum aflaheimildum sem auðlindagjaldið drægist af hverju sinni. Þetta kerfi viðheldur sér sjálft og hefur engin endimörk sem kalla á endurnýjun samninga með tilheyrandi óvissu. Þá ræðst auðlindagjaldið af getu útgerðanna á hverjum tíma, af því verði sem þær bjóða í endurúthlutunina hverju sinni. Er það talin bæði sanngjörn leið til verðmyndunar auðlindagjaldsins og sneiða hjá því að verðlagt sé eftir duttlungum og áorkan þrýstihópa hverju sinni.

Eins með allar auðlindir?
Í yfirlýsingu sautjánmenninganna segir það “ótvíræðan kost við niðurstöðu nefndarinnar hversu rík áhersla er á að auðlindir þjóðarinnar, bæði orka, fiskur og fleira, lúti sambærilegum ákvæðum um nýtingarétt og afnotagjöld.” Skal í því sambandi bent á að sú auðlindastefna hefur ekki verið mótuð og því allsendis óvíst á þessu stigi hversu vel hún muni falla að hinni svokölluðu samningaleið.

Í yfirlýsingu bæjarstjórnendanna 17 eru menn enn einu sinni að veifa óútskýrðum orðaleppum til að sá tortryggni og ótta um atvinnuöryggi í þeirri mikilvægu atvinnugrein sem sjávarútvegurinn er. Gefið er í skyn að náðst hafi sátt um svokallaða samningaleið, þótt rétt sé að meirihlutinn hafi aðeins orðið sammála um að mæla með viðmiði við hana og tekið fram að þar væru undanskilin veigamikil ágreiningsmál. Er verið að reyna að búa til þá mynd að kröfur LÍÚ um síframlengdan langtímasamning um forgang að fiskveiðiauðlindinni og brask með þann veiðirétt í formi sölu, leigu og veðsetningar á kvóta sem þeir lögðu áherslu á, séu innifaldar í samningaleiðinni. Slíkt er blekking, sett fram í trausti þess hve fáir hafi kynnt sér málavöxtu.

Ég legg áherslu á að í þeim lögum sem nú er unnið að og byggist á heildar vinnu sáttanefndarinnar, felist stöðugleiki til frambúðar, jafnræði í aðgangi og sanngjörn verðlagning auðlindagjalds, sem bæði eyði óvissu í greininni og skapi betri sátt um hana. Tímabært er að sú sátt verði við þjóðina sem eiganda auðlindarinnar.

Andrés Rúnar Ingason,
formaður Vinstri grænna í Árborg.

Skýrslu starfshóps um endurskoðun á lögum um stjórn fiskveiða og fylgiskjöl hennar má finna hér:
http://www.sjavarutvegsraduneyti.is/frettir/frettatilkynningar/nr/10194
Þetta er beinn hlekkur á megin skýrsluna:
http://www.sjavarutvegsraduneyti.is/media/Skyrslur/meginskyrsla_uppsett_lokaeintak.pdf

Fyrri greinTillaga meirihlutans féll á jöfnu
Næsta greinAftur frestað hjá Hamri