Andrés Rúnar: Reisum nýtt og betra

1. maí er meira en frídagur, hann er alþjóðlegur baráttudagur verkafólks.

Að 1. maí skuli vera lögboðinn frídagur er áminning til okkar um það að þau réttindi sem launafólk hefur náð, hafa hvorki fengist baráttulaust, né verða þau varin eða aukin réttindi sótt án baráttu.

Verkfallsrétturinn er mikilvægasti rétturinn sem launafólk hefur náð fram. Hann er lykillinn að því að fólk geti sótt annan rétt, til launa, lífeyris, mannréttinda og fleiri lífsgæða. Án verkfallsréttar hefði launafólk ekkert baráttutæki sem bítur. Þessi réttindi voru sótt með hörðum átökum bæði hérlendis og erlendis. Sum verkföll stóðu lengi og reyndu bæði á fjárhag og samstöðu verkafólks. Verkfallsvörðum og kröfugöngum var oft mætt með kylfum og grjótkasti og erlendis með skotvopnum. Fólk var svartlistað með útskúfun frá því að vera ráðið til starfa og fékk ekki eðlilegan aðgang að húsnæði, byggingarlóðum eða bankaþjónustu.

Núna höldum við hátíð 1. maí með skrúðgöngu, kaffisamsæti og hátíðarræðum og þannig á það að vera. Við eigum að fagna því sem áunnist hefur, þakka þeim sem náðu því fram með baráttu sinni og árétta með sjálfum okkur að við höldum baráttunni áfram. Ennþá er verkfallsvopnið brýnt vopn. Það sést meðal annars á muninum á því sem framhaldsskólakennarar náðu fram eftir verkfall og hinu sem önnur stéttarfélög náðu fram með bónleiðum.

Fyrir hvern var „þjóðarsáttin“?
Með „þjóðarsáttarsamningunum” árið 1990 tóku Alþýðusamband Íslands og Vinnuveitandasamband Íslands sig saman um að reyna að kveða niður „verðbólgudrauginn“ sem gengið hafði ljósum logum með áralöngum víxhækkunum launa og verðlags. Við tók meiri efnahagslegur stöðugleiki. Fyrir þennan tíma hafði verkafók náð fram öllum þeim helstu réttindum sem við búum að nú, 40 stunda dagvinnu á viku, lágmarkslaunum, lífeyri, orlofi og fleiru. Við tók að halda í því horfi, en skila fáum nýjum ávinningum. Fyrir atvinnurekendur opnuðust ný sóknarfæri, afkoma þeirra batnaði og fjármagnsmyndun jókst.

Misskipting er að aukast
Það er umhugsunarvert að allt frá „þjóðarsáttarsamningunum“ hefur misskipting milli ríkra og fátækra á Íslandi aukist, fyrst hægt, en með vaxandi hraða frá aldamótum. Með aukinni alþjóðavæðingu kom aðgengi fjármagnseigenda að erlendum fjármálamörkuðum. Samhliða komust þær kenningar til áhrifa sem boðuðu aðhaldsleysi með athafnamönnum og eftirlitsleysi með fjármagni. Þetta endaði með ósköpum sem okkur eru vel kunn.

Við endurreisn efnahags Íslands er kominn tími til að launafólk sæki fram á ný, sæki bætt lífskjör, hærri laun, styttri vinnutíma, meiri jöfnuð og velferð. Til þess þarf vilja og til þess þarf samstöðu. Til þess höldum við baráttudag.

Andrés Rúnar Ingason,
skipar 1. sæti á lista Vinstri grænna í Árborg

Fyrri greinSigrún bætti HSK metið í hálfmaraþoni
Næsta greinFyrsta skóflustungan að viðbyggingu við Sundhöll Selfoss