Almannahagur eða einkavinavæðing

Fjárhagslegar þrengingar Sveitarfélagsins Árborgar undanfarin misseri hafa undirstrikað nauðsyn skýrrar forystu og ábyrgðar í stjórn bæjarins.

Slík forysta fæst aðeins með virkri þátttöku íbúa í kosningum – lýðræðið kallar á að við öll tökum þátt. Kosningarétturinn er einn af hornsteinum lýðræðisins, þar sem íbúar sem hafa kosningarétt fá tækifæri til að hafa áhrif á framtíð samfélagsins. Með því að nýta atkvæðið sitt leggur hver og einn sitt af mörkum til að móta ákvarðanir um þjónustu, framkvæmdir og fjármál sveitarfélagsins.

Því miður er þátttaka ekki sjálfsögð. Í síðustu sveitarstjórnarkosningum í Árborg árið 2022 mættu aðeins um 63,8% kjósenda á kjörstað. Meira en þriðjungur kjósenda kaus að sitja hjá og sú ákvörðun hefur afleiðingar. Niðurstaðan varð sú að einn flokkur – Sjálfstæðisflokkurinn – hlaut hreinan meirihluta í bæjarstjórn með aðeins um 46% atkvæða þeirra sem kusu, sem samsvarar um 28,6% allra skráðra kjósenda. Þetta þýðir að vel yfir helmingur íbúa annaðhvort kaus aðra flokka eða kaus ekki yfirhöfuð, en samt stjórnar minnihluti íbúanna nú meirihluta bæjarstjórnar.

Þetta er afleit staða. Reynslan af eins flokks stjórn er almennt neikvæð. Engar málamiðlanir þarf að gera og einkavinavæðingin tekur völdin. Það er lýðræðisleg nauðsyn til heilbrigðrar stjórnarhátta að miðla þurfi málum og útiloka óeðlieg afskipti og aðgang einstakra „bakhjarla“ að sjóðum og ákvörðunum sveitarfélagsins.

Í stöðu Árborgar, þar sem miklir vaxtaverkir hafa verið til staðar vegna mikillar fjölgunar íbúa og tekna sem skila sér síðar er sérstaklega mikilvægt að rödd hvers einasta íbúa heyrist. Til að knýja fram breytta forgangsröðun, betri stjórn fjármála eða nýjar lausnir – þá skiptir máli að mæta á kjörstað og kjósa. Með þátttöku tryggjum við að bæjarstjórn endurspegli vilja sem flestra íbúa og að ákvarðanir séu teknar með skýru umboði kjósenda.

Látum ekki minnihluta íbúa eftir að móta framtíð Árborgar – tökum höndum saman og nýtum kosningaréttinn.

Sigurjón Vídalín Guðmundsson
Bæjarfulltrúi S-lista í Árborg

Fyrri greinAndlát: Harpa Elín Haraldsdóttir
Næsta greinFirst Water lýkur 3,5 milljarða króna hlutafjáraukningu