Almannahagsmunir ofar sérhagsmunum

Guðbrandur Einarsson.

Viðreisn er flokkur sem margir virðast hafa skoðanir á, sérstaklega þeir sem óttast að Viðreisn taki fylgi frá þeim. Fólk frá vinstri talar oft um Viðreisn sem litla Sjálfstæðisflokkinn og þeir sem kenndir eru við hægrið tala oft um Viðreisn sem systurflokk Samfylkingar.

Hægt er að staðsetja Viðreisn einhvers staðar á milli þessara flokka enda heitir flokkurinn í höfuðið á þeirri ríkisstjórn sem kom til leiðar mikilvægum breytingum á íslensku samfélagi m.a. með inngöngu í EFTA. Rétt eins og gamla Viðreisn kom á kerfisbreytingum á sínum tíma er það markmið nýju Viðreisnar að standa að slíkum kerfisbreytingum á samfélagi nútímans, burtséð frá hugtökum um hægri eða vinstri.

Viðreisn ruggar bátnum
Það er greinilegt að margir eru farnir að óttast velgengni Viðreisnar þessa dagana og nefndi sjónvarpsstjóri nokkur það í pistli nýverið að Viðreisn stæði fyrir það eitt að vilja ganga í ESB og tók fyrrverandi formaður og ráðherra Framsóknarflokksins undir þessa skoðun sjónvarpsstjórans.

Þó að Viðreisn telji það til hagsbóta fyrir íslenskt samfélag að óskað verði eftir inngöngu í ESB fer því fjarri að Viðreisn sé og verði eins máls flokkur. Viðreisn er nú að ganga í gegnum sínar þriðju kosningar og allt útlit fyrir að staða flokksins muni styrkjast verulega. Það staðfestir að margir eru orðnir þreyttir klæðlitlum loforðum um bættan hag og styðja þess í stað vilja Viðreisnar til kerfisbreytinga sem munu bæta íslenskt samfélag til lengri tíma. Undirritun viljayfirlýsinga, skóflustungur, borðaklippingar og innantóm loforð í aðdraganda kosninga eru hætt að virka.

Viðreisn í takti við samfélagið
Það er hægt að nefna marga bolta sem Viðreisn heldur á lofti sem staðfesta að Viðreisn er nútímalegur, frjálslyndur stjórmálaflokkur sem setur almannahagsmuni ofar sérhagsmunum.

Það eru allir að tala um biðlistana
Það eru allir að tala um stöðugleika
Það eru allir að tala um loftlagsmál
Það eru allir að tala um breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu
Það eru allir að tala um breytingar á stjórnarskrá
Það eru allir að tala um geðheilbrigðismál
Það eru allir að tala um skelfileg vaxtakjör á Íslandi

Þetta staðfestir að hjarta Viðreisnar slær í takt við íslensku þjóðina.

Guðbrandur Einarsson
Skipar 1. sæti á lista Viðreisnar í Suðurkjördæmi í komandi alþingiskosningum.

Fyrri grein„Ég er svo sár yfir því að það sé verið að taka þessi tré“
Næsta greinHvað á ég að gera við barnið mitt?