Aldís Hafsteins: Velkomin á Blóm í bæ!

Það er okkur Hvergerðingum sérstök ánægja að bjóða gesti velkomna á Garðyrkju- og blómasýninguna „Blóm í bæ“ sem nú er haldin í þriðja sinn í Hveragerði eftir mikla velgengni síðastliðin sumur.

Tugþúsundir gesta hafa sótt hátíðina og notið fjölbreyttrar sýningar á öllu því sem tilheyrir græna geiranum auk þess sem skreytingar blómaskreyta í bæjarfélaginu hafa vakið mikla athygli fyrir frumleika og fegurð.

Þema sýningarinnar í ár er „skógur“ í tilefni af því að Sameinuðu þjóðirnar hafa valið árið 2011 sem ár skóganna á heimsvíku. Skógræktarfélag Íslands tekur með veglegum hætti þátt í sýningunni og mun meðal annars standa fyrir kynningu á starfsemi sinni, fræðslugöngum og leitinni að hæsta tré Hveragerðisbæjar.

Húsið hans Tarzans í miðbænum mun væntanlega vekja hvað mesta athygli yngstu kynslóðarinnar en einnig er Tískusýning blómanna atburður sem aldrei hefur áður sést hér á landi. Örfyrirlestrar, ljóðablómastaurar, plöntupúl og garðasúpa í görðum bæjarbúa er meðal þess fjölmarga sem á dagskrá verður þessa helgi. Auk þess verða leiktæki og uppákomur fyrir yngstu kynslóðina þannig að engum ætti að leiðast.

Á innisvæði verða þúsundir afskorinna blóma til sýnis á risablómasýningu Aldrei hefur jafn mikið magn af afurðum græna geirans verið til sýnis á einum stað. Útbúið hefur verið veglegt sýningarsvæði fyrir garðplöntur þar sem virða má fyrir sér sumarblóm, berjarunna, matjurtir og fjölæringa. Allar skreytingar í bæjarfélaginu verða í höndum atvinnu- og áhugamanna um blómaskreytingar. Í ár munu erlendir blómaskreytar í fyrsta sinn taka þátt en norskir og danskri blómaskreytar eru mættir til Hveragerðis til að taka þátt í undirbúningi sýningarinnar.

Sýningin hefst næstkomandi föstudag kl. 12 en henni lýkur á sunnudeginum kl. 18. Setningarathöfn í anda norrænna Jónsmessuhefða verður á fimmtudag kl 17.

Um leið og við Hvergerðingar bjóðum alla landsmenn velkomna í bæinn okkar til að njóta þess besta sem íslensk garðyrkja býður uppá bendum við á að nánari upplýsingar er að finna á heimasíðunni www.blomibae.is

Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri Hveragerðis.

Fyrri greinTveir útlendingar til Þórs
Næsta greinFerðamenn strandaglópar í Þorlákshöfn