Aldís Hafsteins: Svona gerir maður ekki!

Hjúkrunarrými eru alltof fá í Árnessýslu og staðfesta langir biðlistar eftir hjúkrunarrýmum í sýslunni þá staðreynd.

Undanfarið hefur ötullega verið unnið að því að fá í nýtingu rými sem Kumbaravogur hefur, án þess að þau væru í notkun vegna plássleysis.

Niðurstaða fékkst í því máli um miðjan apríl en þá voru tekin 4 hjúkrunarrými af Kumbaravogi. Var þetta gert að tilstuðlan sveitarstjórnarmanna í Árnessýslu sem vildu koma þessum rýmum í notkun fyrir íbúa sýslunnar. Þegar hafði verið óskað eftir því við ráðuneyti heilbrigðismála að tvö rými yrðu flutt á Sólvelli á Eyrarbakka og tvö að Ási í Hveragerði þar sem að ónotuð herbergi voru tilbúin og því hægt að taka strax inn í þessi rými.

Með óskiljanlegum hætti ákveður svo ráðuneytið að nýta einungis tvö af þessu rýmum í Árnessýslu nánar tiltekið á Sólvöllum á Eyrarbakka en ganga fram hjá Ási. Aftur á móti var fjölgað um 6 hjúkrunarrými í Rangárþingi en 1 dvalarrými tekið í staðinn!

Bæjarfulltrúar D-listans í Hveragerði lýsa furðu sinni á þessari ákvörðun og fordæma að hjúkrunarrými skuli flutt frá Árnessýslu þar sem lengstu biðlistarnir eru. Á meðan að mikill meirihluti íbúa hjúkrunarheimilis Áss kemur úr hinum dreifðari byggðum Árnessýslu þá er ljóst að þarna er freklega gengið fram hjá hagsmunum íbúa í sýslunni þar sem engin hjúkrunarrými eru í Ölfusi, Grímsnes og Grafningi, Bláskógabyggð, Hrunamannahreppi og Flóahreppi.

Því hljótum við að spyrja og óska svara frá þingmönnum og ráðuneyti við spurningunni um það hver á sjá íbúum okkar fyrir þessari nauðsynlegu þjónustu þegar svona er staðið að málum ?

Svona gerir maður nefnilega ekki !

F. h. Bæjarfulltrúa D-listans í Hveragerði,
Aldís Hafsteinsdóttir

Fyrri greinHalldóra endurkjörin formaður
Næsta greinFóru í heimsókn á lögreglustöðina