Áhugaleysi um samgönguáætlun í Sveitarfélaginu Árborg

Þann 13. júní síðastliðinn sendi Innviðaráðuneytið erindi á öll sveitarfélög landsins og aðra hagsmunaaðila og óskaði eftir umsögnum um drög að samgönguáætlun fyrir árin 2024-2038. Engin umsögn barst frá Svf. Árborg þó formanni bæjarráðs og skipulagsnefnd hafi verið falið af bæjarráði að veita umsögn um samgönguáætlunina fyrir hönd sveitarfélagsins.

Landsfrægt er orðið þegar að meirihluti Sjálfstæðisflokksins í bæjarstjórn Svf. Árborgar lét verða sitt fyrsta verk að hækka þóknun formanns bæjarráðs um 210% frá því sem áður var búið að samþykkja í lok síðasta kjörtímabils. Rökstuðningurinn fyrir hækkun þóknunarinnar var sá að hún væri hækkuð til samræmis við vinnuframlag. Hvaða vinnuframlag?

Fríkeypis umsögn um samgönguáætlun
Með samgönguáætlun setja stjórnvöld fram stefnu og markmið fyrir allar greinar samgangna til fimmtán ára í senn. Ráðherra er skylt að uppfæra áætlunina á þriggja ára fresti. Einmitt nú er komið að þessari uppfærslu. Er mér var ljóst í gærmorgun að engin umsögn hefði borist frá Svf. Árborg rann mér blóðið til skyldunnar og sendi inn umsögn í eigin nafni. Fyrir það tók ég ekki þóknun. Ég tók sérstaklega fyrir fimm atriði sem í mínum huga bæjaryfirvöld ættu að fylgja fast eftir og láta reglulega í sér heyra við ríkisvaldið. Þau fimm atriði eru:

  • Selfossbrú yfir Ölfusá ásamt mislægum gatnamótum
  • Lúkning á tvöföldun vegarins á milli Hveragerðis og Selfoss
  • Vetrarþjónusta á Hellisheiði, Þrengsli og Suðurstrandarveg.
  • Einbreiðar brýr við þjóðveg nr. 1
  • Selfossflugvöllur

Að lokum benti ég Innviðaráðuneytinu á að fara vel yfir umsagnir Samtaka iðnaðarins og óskaði eftir því að ráðuneytið taki þær til alvarlegrar skoðunar við lokagerð samgönguáætlunar.

Leið 101 ekki 1401
Það er mjög alvarleg staða að kjörnir fulltrúar í sveitarfélaginu fylgist ekki með og vinni ekki sína vinnu í að gæta hagsmuna fyrir alla íbúa sveitarfélagsins. Áhugaleysið og sofandahátturinn getur nefnilega þegar öllu er á botninn hvolft reynst okkur mjög dýrkeypt. Og því er brýnt að öllum stundum haldi bæjaryfirvöld uppi þrýstingi hvað varðar kröfur okkar óskir við ríkisvaldið um málefni sem tengjast sveitarfélaginu okkar. Það er bæjarstjórnarpólitík 101, sem er rétta leiðin, ekki þóknun 1401 þkr..

Tómas Ellert Tómasson, byggingarverkfræðingur og fyrrv. bæjarfulltrúi Miðflokksins í Svf. Árborg.

Fyrri greinÞungur róður gegn Létti
Næsta greinReykur í Hveradölum