Leikskólaumhverfið á Íslandi hefur tekið miklum breytingum á undanförnum árum. Sveitarfélög hafa verið að útfæra þjónustu með ýmsum hætti og er Sveitarfélagið Árborg ekki undanskilið því.
Á skólaárinu 2024-2025 var boðið upp á uppeldisnámskeið í tveimur leikskólum sem hluta af aðlögun barna sem eru að hefja leikskólagöngu. Markmiðið með námskeiðinu var að skapa vettvang fyrir fræðslu til foreldra við upphaf leikskólagöngu barnanna. Uppeldisnámskeiðið sem um ræðir er námskeiðið Uppeldi sem virkar – færni til framtíðar sem er sérstaklega þróað fyrir foreldra á Íslandi og byggir á gagnreyndum aðferðum. Á námskeiðinu læra foreldrar aðferðir til að styrkja þá í uppeldishlutverkinu sem laðar fram og styður við æskilega hegðun barna. 50-60% foreldra í tveimur leikskólum sóttu námskeiðið og var niðurstaða foreldra sú að námskeiðið hafi staðist væntingar, verið gagnlegt og fræðandi. Foreldrar höfðu tækifæri til að kynnast og mynda tengsl bæði við starfsfólk og aðra foreldra. Ákveðið hefur verið að bjóða upp á uppeldisnámskeiðið sem hluta af aðlögun í öllum leikskólum í Árborg og hafa verið haldin leiðbeinendanámskeið fyrir hluta af starfsfólki leikskólana.
Öll börn sem verða 18 mánaða við upphaf aðlögunar hafa fengið boð um leikskólavistun frá næsta hausti eða öll börn fædd út mars 2024. Til þess að koma til móts við foreldra er niðurgreiðsla til foreldra barna 18 mánaða og eldri sem nýta sér þjónustu hjá dagforeldrum hækkuð og munu þeir foreldrar greiða gjald sem samsvarar fullu leikskólaplássi hjá Sveitarfélaginu Árborg. Með því er komið til móts við þá foreldra sem eru á bið eftir leikskólaplássi með barn 18 mánaða og eldra.
Skólaárið 2024-2025 fór af stað tilraunaverkefni þar sem skráningu á vistunarfyrirkomulagi barna var breytt og í leiðinni var fast mánaðargjald lækkað. Breytingin fólst í að tekið var upp skráningarfyrirkomulag eftir kl. 14:00 á föstudögum og í Dymbilviku, haust- og vetrarfríi. Foreldrar skrá þá börnin sín sérstaklega þurfi þeir þjónustu á þessu skráningartímum eða skráningardögum. Lagt var upp með að ef foreldrar nýttu alla þjónustu yrði heildargjald foreldra aldrei hærra en áður var greitt fyrir þjónustuna. Vinnutímastyttingu sem núna er nefnd betri vinnutími var beint á þessa tíma og er niðurstaðan sú að heilt yfir hefur starfsánægja aukist og lokunum vegna þess að virkja hefur þurft fáliðunaráætlun hefur dregist saman. Við mat á verkefninu var viðhorf foreldra og starfsfólks til verkefnisins kannað. Ákveðið var að halda verkefninu áfram og tilraunaverkefnið fest í sessi auk þess að bæta við skráningardegi á Þorláksmessu. Leikskólar Árborgar verða lokaðir á milli jóla- og nýárs.
Með ofantöldum aðgerðum er verið að styðja við barnafjölskyldur og styðja við leikskólaumhverfið, bæði fjölskyldum og starfsfólki til hagsbóta. Er það von okkar að þróunin verði áfram með jákvæðum hætti en árangurinn er sá að dregið hefur úr veikindafjarveru starfsfólks, starfsánægja í leikskólum hefur aukist og virkjun fáliðunaráætlunar heyrir til undantekninga.
Heiða Ösp Kristjánsdóttir,
sviðsstjóri fjölskyldusviðs Árborgar
Júlíana Tyrfingsdóttir,
faglegur leiðtogi leikskóla Árborgar