Að skeyta hvorki um skömm né heiður

Það reyndist verða fyrsta verk nýs hreins meirihluta D-lista í bæjarstjórn Svf. Árborgar eftir kosningar vorið 2022 að hækka þóknun formanns bæjarráðs úr 21% í 65% af þingfarakaupi, úr kr. 269.936 í kr. 835.517,- á mánuði, eða alls hækkun upp á kr. 565.936 á mánuði.

Við lækkun á launum bæjarfulltrúa og nefndarfólks þann 1.janúar 2023 fór þóknun formanns bæjarráðs úr 65% í 62% af þingfararkaupi. Við það breyttist þóknunin úr kr. 835.517 í kr. 796.955. Viðmiðunarfjárhæðin er þingfararkaup eins og það var þann 1. júlí 2021, eða kr. 1.285.411,- á mánuði.

Bæjarfulltrúar voru með 26,4% þóknun af þingfararkaupi en það var lækkað í 25,08% þann 1.janúar 2023. Þóknun bæjarfulltrúa er því í dag kr. 322.381,- á mánuði (0,2508 x 1.285.411 = 322.381).

Í reglum um kjör bæjarfulltrúa og nefndarmanna sem tóku gildi í lok síðasta kjörtímabils og allir þáverandi bæjarfulltrúar samþykktu, m.a. núverandi bæjarfulltrúar D-lista þau Kjartan Björnsson og Brynhildur Jónsdóttir, var kveðið á um að formaður bæjarráðs hefði 21% af þingfararkaupi auk bæjarfulltrúalauna, fyrir að sinna því starfi. Það hefði því gert kr. 269.936,- (0,21 x 1.285.411 = 269.936) + kr. 322.381,- eða samtals kr. 592.317,- á mánuði.

Mismunurinn er tæplega 13 milljónir þessi tvö ár sem þetta fyrirkomulag D-lista hefur verið við lýði þrátt fyrir andstöðu minnihluta bæjarstjórnar og ítrekaðar beiðnir um útskýringar á því fyrir hvað væri verið að borga sem réttlætti þessa gríðarlegu hækkun.

Barbabrellur
Við stólaskipti meirihluta D-lista sem áttu að fara fram á síðasta fundi bæjarstjórnar átti þessi prósenta að lækka aftur í 21% eins og gert hafði verið ráð fyrir því í samþykktri fjárhagsáætlun ársins 2024. Nú brá hins vegar svo við að meirihluti D-lista klofnaði og D-listi ásamt Á-lista hófu í framhaldinu meirihlutasamstarf sem tók gildi á síðasta bæjarstjórnarfundi. Þá kom í ljós að þóknun formanns bæjarráðs var alls ekki lækkað niður í 21% heldur 42%.

Engar útskýringar fylgdu frekar en fyrri daginni og mótmælti minnihlutinn þessari undarlegu ráðstöfun því harðlega og lagði fram bókun þar um. Hinn nýji meirihluti reynir hins vegar að slá ryki í augu fólks með að segja að verið sé að lækka þóknunina úr 62% í 42%. Það sjá auðvitað allir í gegnum slíka framsetningu.

Á sama tíma og álögur aukast stórum á íbúa sveitarfélagsins skeytir meirihluti D- og Á- lista hvorki um skömm né heiður gagnvart íbúum Árborgar. Það er dýrt að stækka hratt og uppbygging innviða reyndi sannarlega á þolmörkin í fjárhag sveitarfélagsins, enda koma tekjurnar síðar. Það er almennur skilningur á aðhaldi og auknum álögum upp að skynsamlegu marki en að viðhafa sjálftöku á borð við launahækkanir formanns bæjarráðs á sama tíma er skammarlegt.

Til að glöggva sig á hvað þetta þýðir í krónum talið þá verður þóknun formanns bæjarráðs núna 42% eins og áður sagði eða kr. 539.873,- á mánuði + kr. 322.381,- eða samtals kr. 862.254,-. Ef það helst út kjörtímabilið þá gerir það mismun uppá kr. 269.937,- á mánuði eða kr. 6.478.488,- fyrir tvö ár. Samtals mun því D-listinn í Árborg ásamt Á-lista borga formönnum bæjarráðs kr. 19.396.875 umfram það sem sátt ríkti um í lok síðasta kjörtímabils.

Meðan ekki fæst útskýring á því hvernig verkefni formanns bæjarráðs hafa breyst á kjörtímabilinu sem krefjast þess að hann þurfi að fá yfir 19 milljónir aukalega á 4 árum þá getum við ekki litið öðruvísi á en um blygðunarlausa sjálftöku og um algera vanvirðingu við íbúa og starfsfólk sveitarfélagsins sé að ræða.

Að fá fólk með sér í lið
Það er alger lágmarkskrafa að meirihlutinn í bæjarstjórn praktíseri það sem þeir sjálfir predika. Að gera kröfu á starfsfólk og íbúa um að herða sultarólina með niðurskurði á stöðugildum, skerðingu á þjónustu og stórauknum álögum en hækka svo eigin laun og biðja íbúa um að sýna erfiðri stöðu skilning er hreinlega auvirðileg framkoma.

Arna Ír Gunnarsdóttir og
Sigurjón Vídalín Guðmundsson,
bæjarfulltrúar Samfylkingar í Svf. Árborg.

Fyrri greinSnjóbíllinn Gusi afhentur Skógasafni
Næsta greinSex héraðsmet á Vormóti ÍR