Oddviti Framsóknarflokksins í Sveitarfélaginu Árborg skrifaði grein sem birtist í Sunnlenska og dfs í síðustu viku þar sem hann rakti raunir sínar í samstarfi við nýjan meirihluta í sveitarfélaginu Árborg.
Nýr meirihluti
Nýr meirihluti tók til starfa þann 23. maí síðastliðinn. Við í Áfram Árborg töldum ekki grundvöll fyrir meirihlutasamstarfi margra flokka þar sem eina haldið í samstarfinu virtist vera að sami bæjarstjóri ætti að sitja áfram í stólnum í blóra við samkomulag sem kvað á um annað. Við töldum vænlegra að hefja meirihlutasamstarf við einn flokk sem við áttum málefnalega samleið með og hefur sýnt okkur virðingu í samstarfi það sem af er kjörtímabili. Íbúum og hagsmunum sveitarfélagsins er betur borgið ef samstarf flokka í meirihluta er reist á traustum málefnalegum grunni. Það er mikilvægara en hver situr í hvaða stól.
Öryggisgirðing og meint samráðsleysi
Fulltrúi B lista kvartar yfir skorti á samráði vegna girðingar í Sigtúnsgarði sem var reist vegna framkvæmda í nýja miðbænum. Það að hafa samráð þýðir það að teknar eru sameiginlegar ákvarðanir og aðgerðir eru samræmdar. Þó ekki séu allir sömu skoðunar þýðir það ekki að um skort á samráði sé að ræða. Okkar starf felst í því að tala saman, eiga hreinskiptin skoðanaskipti og leita bestu niðurstöðu. Stundum á orðið samráð ekki við. Lokaniðurstaða mála þýðir oft að minnihlutinn er ósáttur við ákvarðanatöku meirihlutans.
Um öryggisgirðingar gilda skýrar reglur sem ber að fylgja. Við allar framkvæmdir ber framkvæmdaaðilum ávallt að setja öryggismál í öndvegi sbr. byggingareglugerð, 4.11.3 og 4.11.1 grein.
Framkvæmdaaðili sendi inn beiðni til byggingafulltrúa um að fá að girða af framkvæmdasvæði miðbæjarins. Skipulagsnefnd tók málið fyrir og samþykkti samhljóða að staðsetningu girðingar yrði breytt þar sem framkvæmdir væru ekki að fara af stað á öllu svæðinu strax. Þannig hefðu núverandi framkvæmdir sem minnst áhrif á hátíðarhöld í Sigtúnsgarði. Gott samtal var milli allra fulltrúa í skipulagsnefnd þar sem allir flokkar eiga fulltrúa og málið afgreitt samhljóða úr nefndinni.
Í bæjarráði er óskað eftir ítarlegri gögnum sem eru lögð fram með nánari skýringum um nýja staðsetningu girðingar og hvaða framkvæmdir séu að hefjast í miðbæ Selfoss. Samt neitar fulltrúi Framsóknar að samþykkja málið í bæjarráði sem fær þá endanlega afgreiðslu í bæjarstjórn 26. júní sl.
Nýja staðsetningin nær aðeins utan um svæði þar sem nú er verið að framkvæma og þýðir að hátíðahöld í garðinum í sumar geti farið fram með eðlilegum hætti á sama tíma og öryggi vegfarenda og gesta á hátíðarhöldunum er tryggt. Girðingin er nú að mestu komin upp og er hin snyrtilegasta. Þetta náðist einmitt með góðu samtali og samráði milli sveitarfélagsins og framkvæmdaaðila. Kjörnir fulltrúar voru vel upplýstir í öllum málatilbúnaði.
Málið var rætt og afgreitt á öllum stjórnsýslustigum og því hvorki hægt að tala um skort á samráði né samtali.
Uppgjör íþróttahallar
Fulltrúi B-lista furðar sig á að Á listi gangist í ábyrgð fyrir leiðrétt heildaruppgjör íþróttahallarinnar. D-listinn lagði fram heildaruppgjör á fundi eigna- og veitunefndar þann 16.apríl sl. Fyrir áhugasama er hægt að lesa fundargerðina á vef Árborgar. Ég sat ekki umræddan fund.
Umræður kjörinna fulltrúa í bæjarstjórn þann 15. maí sl. um málið er hægt að finna í þessu myndbandi. Umræðan hefst á 1:26:00 mín. Þar kemur skýrt fram að Á listinn tekur ekki ábyrgð á þessu uppgjöri frá 16.apríl sl.og telur það rangt.
Í kjölfar þessa samtals kjörinna fulltrúa þá leggur nýr meirihluti eigna- og veitunefndar fram leiðrétt uppgjör á fundi í eigna- og veitunefnd þann 2.júlí sl. sem Á listinn tekur fulla ábyrgð á. Tekið er fram í bókun meirihlutans að okkur þætti leitt að uppgjör með verkþáttum sem áttu ekki að vera inn í heildaruppgjöri hefðu verið birtar þann 16. apríl sl.
Í framhaldi þessa máls er verið að skýra betur verklag sveitarfélagsins við framlagningu kostnaðaráætlana og uppgjöra við framkvæmdir svo slíkt gerist ekki aftur.
Með leiðréttu uppgjöri er málinu vonandi lokið í sátt.
Jákvætt samstarf nýs meirihluta
Það hefur ýmislegt jákvætt áunnist á þeim rúmum 7 vikum sem nýr meirihluti hefur starfað.
Við höfum samþykkt að stofna samráðshóp til að endurhanna Sigtúnsgarðinn í ljósi nýs deiliskipulags frá því í júní 2023 og gera hann þannig úr garði að fleiri viðburðir og meiri samvera í garðinum verði ákjósanleg. Í hópnum verða hagaðilar, s.s. viðburðahaldarar, íþróttafélögin ofl.
Við erum að gera úttekt á skólamáltíðum eftir að okkur var bent á að þeim gæti verið ábótavant í gæðum og næringargildi. Við erum á góðu skriði með undirbúning fjárhagsáætlanagerðar og frekari hagræðingaraðgerða sem eiga ekki að koma niður á minni þjónustu við íbúa eða meiri álögum. Ég gæti talið fleira upp en hlífi lesendum fyrir langri blaðagrein.
Að lokum
Bæjarfulltrúi B lista telur sig þess umkominn í pistli sínum að segja mér fyrir verkum og hvernig ég eigi að haga mínum störfum. Þetta kann ég ekki við. Ég er fullfær um að taka ákvarðanir og geri það í samráði við mitt samstarfsfólk í Áfram Árborg og meirihlutanum.
Ég fæst ekki um það hvernig oddviti B lista hagar sínum störfum.
Álfheiður Eymarsdóttir,
oddviti og bæjarfulltrúi Á lista,
varaformaður bæjarráðs og eigna- og veitunefndar.