Aðalheiður Guðmundss: Hugleiðingar vegna niðurskurðar

Það voru váleg tíðindi sem okkur bárust frá Heilbrigðisráðuneytinu nú fyrir tæpri viku síðan.

Ég heyrði einhvern segja að líkja mætti afleiðingum þessara tíðinda við veirusýkingu þ.e. framkvæmdastjórn HSu fór suður til höfuðborgarinnar á fund heilbrigðisráðuneytis og kom til baka illa sýkt af vírusi. Einkenni þessarar sýkingar sem reyndist vera bráðsmitandi voru m.a. depurð, höfuðverkur, svefnleysi, óróleiki og listarleysi. Þessi sýking breiddist hratt út meðal starfsmanna.

En að öllu gamni slepptu þá er það margt sem leitar á hugann nú við þessi válegu tíðindi. Hlutur okkar ef horft er til Sjúkrahússviðsins er ótrúlega hár eða 56,5% . Hvernig stendur á því að landsbyggðin á að taka á sig 85% af boðuðum sparnaði í heilbrigðisgeiranum? Eru bök þeirra breiðari en annara, eru laun þeirra hærri og hafa þeir af meiru að taka?… eða erum við afgangsstærð eins og einhver orðaði það svo nöturlega? Allt starfsfólk við HSu hefur unnið samviskusamlega að tillögum um hvernig spara megi sem svarar 5-10% á öllum deildum og allir lögðust á eitt. Það var það sem við reiknuðum með að kæmi í okkar hlut en annað kom á daginn.

Hvað þýðir þetta svo í raun?

Við höfum þegar heyrt af öllum þeim störfum sem munu tapast og þá fyrst og fremst kvennastörf þannig að þetta er ekki einungis aðför að landsbyggðinni heldur líka að störfum kvenna.

Það sem mér er þó ekki síður ofarlega í huga er hvert eiga sjúklingarnir okkar að leita þegar búið er að skella hér í lás… á ég þá við hópa eins og:

Krabbameinssjúklinga í lyfjagjöf og í líknandi meðferð sem hafa treyst á að fá þessa þjónustu hér.

Bæklunarsjúklingar en þeir hafa átt greiðan aðgang á sjúkrahúsið strax eftir aðgerð og því hefur verið hægt að ráðast fyrr í aðgerð vitandi ef þessu úrræði en samstarf um það hefur verið mjög gott milli LSH og HSu.

Allir almennir lyflæknissjúklingar, sjúklingar sem leggjast inn mjög oft en geta verið heima þess á milli með stuðningi sem þeir hafa fengið frá lyflæknissviði.

Allar konur í meðgöngu og fæðingu og þjónustan sem þær eiga rétt á.

Sjúklingahópur sem er á sérstökum lista vegna sinna sjúkdóma sem geta lagst inn um leið og eitthvað bregður út af sem hefur verið ómetanlegt fyrir þá einstaklinga og aðstandendur þeirra. Starfsólk hér hefur sinnt þessum einstaklingum af mikilli alúð og þekkingu sem seint verður þakkað og tala ég af eigin reynslu hvað það varðar.

Sjúklingar sem fara í minni háttar aðgerðir. Á skurðstofunni hefur þegar verið dregið mikið saman og rekstrarkostnaður þar ótrúlega lár. Þar eru skilgreindir þrír aðgerðadagar í viku sem væntanlega flytjast á einkarekna skurðstofur til Reykjavíkur sem þýðir ferð til Reykjavíkur með tilheyrandi kostnaði,vinnutapi og óþægindum sem því fylgir.

Að lokum vil ég rétt nefna að við búum á svæði þar sem bæði jarðskjálftar og eldgos hafa nýlega dunið yfir með tilheyrandi afleiðingum m.a. var báðum brúm lokað svo samgöngur til Reykjavíkur lokuðust alveg.

Við megum ekki gleyma að bak við allar þessar tölur eru einstaklingar/skjólstæðingar sem er mjög viðkæmur hópur og á erfitt með að berjast fyrir sínu. Það að þurfa að fara til Reykjavíkur í hvert skipti sem eitthvað bregður út af er ekki einungis tilfærsla á fjármunum heldur líka mismunun og hróplegt ranglæti.

Ég hvet alla Sunnlendinga til að standa vörð um sitt sjúkrahús, við krefjumst réttlátrar meðferðar, okkar bök eru ekki breiðari en annarra.

Aðalheiður Guðmundsdóttir, hjúkrunarstjóri á sjúkrahússviði HSu

Fyrri greinHúsfyllir á orgelverkstæðinu
Næsta greinNína í höfuðstöðvarnar