Aðalsteinn og Elsa: Heima er best

Í apríl síðastliðnum hlaut Hrunamannhreppur Landgræðsluverðlaun fyrir þróunarverkefnið að nýta seyru til uppgræðslu lands.

Best er þó að í stað kostnaðarsamrar förgunar á seyrunni er henni nú breytt í góðan áburð fyrir gróðursnauðan jarðveg. Og árangurinn hefur ekki látið á sér standa. Með þessari viðurkenningu frá Landgræðslu ríkisins hefur það nú verið staðfest.

Það er okkur því gleðiefni að þetta verkefni sé orðið fyrirmynd annarra svipaðra verkefna og óskum Mývetningum til hamingju með sambærilega seyrumeðhöndlunarverkefni sitt.

Við Hrunamenn getum verið afskaplega stolt af þessu frumkvöðlastarfi, viðurkenningu Landgræðslunnar og ekki síst því að geta verið fyrirmynd annarra sveitarfélaga í þessum efnum.

En við það má ekki sitja – það þarf að gera betur á öðrum sviðum.

Dvalar- og hjúkrunarrými í heimabyggð
Í Hrunamannahreppi er gott að búa. Svo gott að við viljum geta átt þar heima þrátt fyrir veikindi, fötlun og öldrun. Í því sambandi hafa önnur sveitarfélög gert betur en við. Til þeirra er þá að horfa og læra af.

Við á H-lista Hrunamannahrepps erum sannfærð um það að með elju, einbeitingu og ómældum áhuga getum við hrundið af stað uppbyggingu dvalar- og hjúkrunarrýma í heimabyggð.

Í nýrri greinargerð Velferðarráðuneytis kemur fram að íbúar 67 ára og eldri í heilbrigðisumdæmi Suðurlands eru næstfjölmennastir á öllu landinu eða 13,3% af heildaríbúafjölda. Á næstu árum er gert ráð fyrir að þetta hlutfall hækki ennfrekar.

Miðað við aldursdreifingu íbúa Hrunamannahrepps má gera ráð fyrir að á næstu árum verði hlutfallið í sveitarfélaginu enn hærra en meðaltal Suðurlands, sem þó er hátt. Það er því einarður vilji okkar að vinna að framgangi þess að hjúkrunar- og dvalarrými rísi í heimabyggð og þar viljum við líka vera til fyrirmyndar.

Aðalsteinn Þorgeirsson, 4. sæti H-lista
Elsa Ingjaldsdóttir, 5. sæti H-lista

Fyrri greinLeitað að vitnum að banaslysi
Næsta greinTap í fyrsta heimaleiknum