Að greinast með krabbamein

Það reynist flestum mikið áfall að greinast með krabbamein og veikindin geta haft margvísleg áhrif á daglegt líf. Krabbamein er sjúkdómur sem hefur áhrif á líf allrar fjölskyldunnar, vini og aðra aðstandendur ekki síður en hinn krabbameinsgreinda.

Í kjölfar greiningar fer af stað ferli sem margir upplifa sem tilfinningalegan rússibana. Upplifun um innri átök við tilfinningar eins og reiði, hræðslu og ótta um það sem framundan er, lífslíkur og áhrif á líf fjölskyldunnar. Það eru fleiri spurningar heldur en svör og stundum verða þessar breytingar yfirþyrmandi.

Krabbameinið tekur oft yfir stjórninni í lífi fjölskyldunnar. Plönum er breytt, áhyggjur verða til vegna fjármála, hlutverk innan heimilisins breytast og fjölskyldan þarf að aðlagast nýju lífi. Margar fjölskyldur upplifa varnarleysi í nýjum aðstæðum þar sem tekist er á við óþekkta ógn sem erfitt er að ná stjórn yfir. Heilbrigðiskerfið, tryggingakerfið og réttindamál eru eitt af þeim nýju verkefnum sem fjölskyldan þarf að takast á við og við bætist hafsjór af nýjum upplýsingum sem erfitt getur reynst að ná utan um.

Krabbameinsfélag Árnessýslu býður uppá fræðslu, stuðning og ráðgjöf við krabbameinsgreinda og fjölskyldur þeirra. Hjá félaginu er hægt að nálgast upplýsingar um lagaleg- og félagslegréttindi auk þess sem félagsmenn eiga meðal annars rétt á niðurgreiðslu vegna sérfræðiþjónustu.

Þið finnið okkur á facebook undir nafninu Krabbameinsfélag Árnessýslu, getið sent okkur tölvupóst á arnessysla@krabb.is eða hringt í síma 788 0300

Fyrri greinBjóða ekki fram í Suðurkjördæmi
Næsta greinFeðgar á ferð og flugi