Þórný Björk: Lífið á Eyrarbakka

Líf. Það er það sem kemur upp í hugann þegar hugsað er um Eyrarbakka framtíðarinnar.

Hér vil ég búa lengi og vil gjarna hafa börnin mín nálægt, en hvað hafa þau hingað að sækja? Reyndar hefur ýmislegt gerst þetta ár sem ég hef búið á Eyrarbakka sem eykur líf á staðnum og dregur ferðafólk að, en hvað með fólkið sem býr á staðnum?

Atvinnuleysi er í Árborg eins og annars staðar en hlutfallslega meira á Eyrarbakka. Með nýjum fyrirtækjum skapast ný verkefni fyrir þau sem fyrir eru og allir græða. Sveitarfélagið þyrfti hugsanlega að kosta einhverju til svo fyrirtækin sæju sér hag í að koma á Eyrarbakka en slíkt gæti margborgað sig.

Börnin mín eru vön að ferðast með skólabílum langar leiðir og því var mikil tilhlökkun að geta hjólað í skólann og jafn mikil vonbrigði þegar uppgötvaðist að fara þyrfti í skólabíl á Stokkseyri fyrstu árin. Ég hef verið opin fyrir hugmyndum um flutning skólans en eftir því sem ég hugsa meira um kosti og galla málsins þeim mun ákveðnari verð ég í því að halda skólastarfi á staðnum. Hjarta bæjarins færi með skólanum, ef hann verður fluttur. Elstu börnin mín upplifðu það að skólinn þeirra var lagður niður og þau voru flutt í stærri skóla í annað sveitarfélag. Gallarnir yfirgnæfðu kostina hvað börnin varðaði við þá yfirfærslu.

Þjónustan við börnin er aðalatriðið í mínum huga en það eru líka aðrir þættir sem ég vil að sveitarfélagið hugi betur að. Þar vil ég nefna aukið viðhald gatna, göngustíga og ljósastaura. Ég tel líka að skynsamlegt væri að stækka tjaldsvæðið því áhugi ferðafólks á Bakkanum er mikill. Þjónusta sem ríkið hefur á sínu forræði hefur verið skorin niður og ég tel mikilvægt að bæjaryfirvöld þrýsti á um aukna og sýnilega löggæslu, við höfum öll þörf fyrir öruggt umhverfi hvar sem við búum. Samfylkingin hefur sýnt það á undanförnum árum að hún vill sterkt samfélag í allri Árborg. Þess vegna skora ég á þig að setja X við S á kjördag.

Þórný Björk Jakobsdóttir, íbúi á Eyrarbakka, skipar 9. sæti á framboðslista Samfylkingarinnar í Árborg.

Fyrri greinHamagangur á Hellu
Næsta greinSelfoss – Stjarnan 2-2