Þorsteinn Hjartar: Leið til aukins námsárangurs í Árborg

Á samstarfsfundum skólastjórnenda í Sveitarfélaginu Árborg og starfsfólks skólaþjónustunnar hefur verið mótað verklag sem miðar að því að efla lestrarfærni nemenda og málþroska.

Liður í því er að nota bestu mögulegu skimunartæki á markvissan hátt, greina vel niðurstöður og vinna með þær þannig að nemendur sýni góðar framfarir í lestri og öllu öðru námi. Verkefnið er þegar farið af stað í grunnskólum sveitarfélagsins en verður unnið af fullum krafti í samstarfi skólastjórnenda, kennara og kennsluráðgjafa frá og með skólaárinu 2014-2015. Í 1. bekk grunnskólanna er skimunartækið Leið til læsis notað en prófið gefur kennurum upp nákvæma stöðu í hljóðkerfis- og hljóðavitund, bókstafa- og hljóðaþekkingu og málskilningi og orðaforða. Skimun með LOGOS fer svo fram í 3., 6. og 9. bekk og stafsetning í GRP-14 í 9. bekk. LOGOS er tölvutækt greiningarpróf sem er grundvallað á nýlegum rannsóknum á lestrarfærni. Skimun og lestrargreining með þessu öfluga tæki gefur okkur möguleika á því að veita góðar leiðbeiningar um hvernig niðurstöður geta nýst við val á kennslufræðilegum úrræðum.

Rannsóknir hafa sýnt fram á mikilvægi þess að lestrarvandi sé greindur sem fyrst svo grípa megi tímanlega inn í með viðeigandi hætti. Hins vegar er ekki nóg að vinna með lestur í grunnskólunum því leikskólarnir gegna afar stóru hlutverki í því að byggja upp góðar undirstöður. Þar er einnig unnið að greiningum og skimunum með HLJÓM-2 sem mælir hljóðkerfisvitund ásamt TRAS sem er skráningarlisti til notkunar fyrir leikskólakennara til að fylgjast með máltöku ungra barna og félagsþroska með fyrirbyggjandi íhlutun í huga. Í þessu sambandi er afar ánægjulegt að geta sagt frá því að allir leikskólarnir í Árborg hafa sótt saman um styrk í Sprotasjóð vegna verkefnis sem nefnist „Að auka hæfni, þekkingu og leikni leikskólabarna í læsi.“ Verkefnið gengur m.a. út á það að þróa daglegar og markvissar sögu- og samræðustundir með áherslu á aukinn hlustunar- og málskilning barna, aukinn orðaforða, hugtakaskilning og tjáningu.

Í nýlegri skólastefnu Árborgar 2013–2016 eru sett fram mörg metnaðarfull markmið og eitt þeirra snýr að samræmdum prófum. Á undanförnum árum hefur árangur í einstökum námsgreinum í grunnskólum sveitarfélagsins verið undir landsmeðaltali en því ætlum við að breyta. Við stefnum að því að árangur í samræmdum prófum verði um eða yfir landsmeðaltali eigi síðar en 2016. Það er ánægjuleg að sjá að nú þegar erum við á réttri leið sé tekið mið af síðastliðnum þremur árum. Með góðri samvinnu allra helstu aðila skólasamfélagsins, kennslufræðilegri umræðu, sjálfsmati og mótun umbótaáætlana er örugglega hægt að ná fram áðurnefndu markmiði. Góð lestrarfærni er undirstaða alls árangurs í námi og það er von okkar að skýrir verkferlar í lestrarskimunum og greiningum og fjölbreytt kennslufræðileg úrræði muni stuðla að góðum framförum í námi nemenda á næstu árum.

Þorsteinn Hjartarson, fræðslustjóri