Þórður Már og Finnbogi: Bann við frjálsum handfæraveiðum er mannréttindabrot!

Fram á daga kvótakerfisins voru litlar hömlur settar á sjósókn almennings.

Þær takmarkanir sem þó mátti búa við voru helst settar til þess að tryggja hagsmuni einnar stéttar umfram annarrar, sem dæmi um það má nefna vistarbandið og konungsútgerðina á árum áður.

Kvótakerfinu var komið á undir því yfirskyni að fiskistofnum stæði slík hætta af ofveiði að brýn þörf væri á aðgerðum. Þegar mönnum var meinuð frjáls veiði var atvinnufrelsi þeirra takmarkað, en atvinnufrelsi manna er verndað af 75. gr. stjórnarskrár Íslands. Það verður því aðeins takmarkað að kröfur stjórnarskrárinnar séu uppfylltar, þ.e. a) með lögum frá Alþingi og b) þá þurfa að liggja almannahagsmunir að baki takmörkuninni. Alþingi getur því ekki sett lög sem banna mönnum að róa til fiskjar nema almannahagsmunir séu að baki.

Almannahagsmuni skortir
Líkt og fyrr greinir, þá eru rökin fyrir því að banna mönnum að róa til fiskjar, að hætta sé á ofveiði. Ekki er í dag skilið á milli stórtækra veiða togara og smábáta, jafnvel þó vitað sé að veiðihæfni handfæra er afar lág, en samkvæmt tölum frá Hafrannsóknastofnun er hún 0,6%, sem þýðir að aðeins nást 6 af hverjum 1.000 fiskum sem komast í tæri við krókana. Því er útilokað að ofveiða fiskistofna með slíkri veiðihæfni, jafnvel þó hver einasti Íslendingur færi að róa. Því er ljóst, að krókaveiðar ógna á engan hátt fiskistofnunum. Engin skilyrði eru því til staðar til að banna mönnum slíkar veiðar, enda skortir almannahagsmuni, líkt og stjórnarskrá kveður skýrt á um að þurfi að vera til staðar.

Hagsmunum sjávarbyggða fórnað fyrir kvótahafa og fjármagnseigendur
Hagfræðingar LÍÚ hafa snemma gert sér grein fyrir því að til þess að „fullkomna“ kvótakerfið yrðu þeir að koma á einokunarstöðu með aflaheimildir (kvóta), til þess að geta stjórnað framboði og búa til skort og snarhækka þannig verð á leigukvóta sem og varanlegum kvóta. Ástæða umræddrar takmörkunar er því ekki fiskifræðileg, heldur hagfræðileg ráðstöfun til hagsbóta fyrir stóra kvótahafa sem eiga mikið undir háu kvótaverði. Bann við frjálsum handfæraveiðum stýrist því ennfremur af hagsmunum bankanna og kröfuhafa þeirra. Hagsmunum sjávarbyggða og íbúa þeirra er því fórnað fyrir núverandi kvótahafa og fjármagnseigendur, allt undir yfirskyni fiskverndar!

Færum byggðunum aftur sjálfsbjargarrétt sinn
Eitt helsta baráttumál Lýðræðisvaktarinnar www.xlvaktin.is er að aflétta hömlum á krókafæraveiðar og að færa byggðum landsins og íbúum þeirra aftur sjálfsbjargarrétt sinn, mannréttindi sem þeir voru sviptir til hagsbóta fyrir örsmáan hóp manna. Það teljum við vera eitt allra stærsta hagsmunamál byggða landsins, ekki ólíkt því þegar þeim hömlum var aflétt sem fólust í vistarbandinu og konungsútgerðinni á árum áður.

Þórður Már Jónsson, hdl., 2. sæti XL í NA-kjördæmi
Finnbogi Vikar, viðskiptalögfræðingur og sjómaður, 1. sæti XL í Suðurkjördæmi

Fyrri greinLengjubikarinn: Selfoss vann – Árborg og Ægir töpuðu
Næsta greinPáskarnir útskýra ekki allt