Æfingin skapar meistarann – lestur unglinga

Síðastliðið haust voru nemendur í 9. bekk í fimm skólum á svæði Skóla-og velferðarþjónustu Árnesþings skimaðir fyrir lestrarvanda með mælitækinu LOGOS greiningartæki sem greinir lestrarerfiðleika hjá börnum.

34% nemenda féllu undir skilgreind viðmið um lestrarvanda. Öllum nemendum sem féllu undir viðmiðin var boðið á hraðlestrarnámskeið. Námskeiðið byggðist upp á endurteknum lestri heima og í skóla. Nemendur lásu undir stjórn kennara og foreldra fjórum sinnum í viku. Þrjár mínútur heima og þrjár mínútur í skóla.

Árangurinn af námskeiðinu fór fram úr björtustu vonum. 54% þeirra nemenda sem fóru á námskeiðið bættu árangur sinn á þann hátt að eftir átta vikur mældust þeir ekki lengur undir viðmiðum um lestrarvanda. Þeir sem áfram mældust undir viðmiðum fengu frekari greiningu og viðeigandi stuðning. Sumir bættu árangur sinn svo um munaði og lásu eftir þessar átta vikur tvisvar sinnum hraðar en áður. Ætla má að þessir nemendur hafi fallið undir viðmiðin í fyrstu mælingu vegna æfingaleysis en ekki vegna undirliggjandi dyslexíu. Áhugavert er að sjá að sex mínútna lestur fjórum sinnum í viku geti bætt árangur nemenda jafn mikið og raun ber vitni.

Hvað veldur?

Á sama tíma og við gleðjumst yfir þessum góða árangri vekur hann einnig upp spurningar. Hvers vegna eru nemendur sem ættu ekki að þurfa að vera undir viðmiðum um lestrarvanda í svona miklum vanda? Getur verið að áherslan á lestur detti niður á unglingastigi og að nemendur lesi fyrst og fremst skólabækur og texta í snjallsímum og tölvum. Annar lestur er kannski ekki svo mikill. Ef nemendur lesa ekki reglulega er hætta á því að þeim fari aftur í lestri. Til þess að viðhalda færni sinni þurfa nemendur að lesa bæði heima og í skóla, líka eftir að þeir teljast hafa náð góðri færni. Árangur nemenda af þessu litla námskeiði sýnir að til að auka við árangur sinn eða viðhalda honum þarf ekki mikinn tíma í reglulegan markvissan lestur.

Með þessu greinarkorni viljum við vekja athygli á lestri unglinga og mikilvægi þess að reglulegur lestur heima og í skóla minnki ekki á unglingsárum. Þá er hætta á að sá árangur sem náðst hefur tapist niður. Hæfnin að geta lesið er ein mikilvægasta hæfni sem nútíma maður þarf að búa yfir. Ef sú hæfni er skert hjá einstaklingi og ekkert er að gert, má ætla að viðkomandi búi við skert lífsgæði. Hann hefur þá ekki sömu möguleika og aðrir til að vera virkur þátttakandi í nútíma samfélagi, öðlast menntun og taka þátt í atvinnulífinu.

Ólína Þorleifsdóttir, Skóla- og velferðarþjónustu Árnesþings
Erna Ingvarsdóttir, Grunnskólanum í Hveragerði
Kolbrún Haraldsdóttir, Flúðaskóla
Steinunn Margrét Larsen, Bláskógaskóla Reykholti og Laugarvatni
Ragnhildur Þorsteinsdóttir, Grunnskólanum í Þorlákshöfn

Fyrri greinViktor veiðikló
Næsta greinBanaslys í Silfru