Ég er kennari

Erna Jóhannesdóttir.

Ég kenni unglingum, ég man þegar ég var sjálf mjög geðvondur unglingur í 10. bekk í Sandvíkurskóla.

Mér fannst flest allt leiðinlegt og tilgangslaust og ég hugsaði með mér hvaða fávita dettur í hug að gera kennarastarfið að ævistarfi sínu? Hver fer sjálfviljugur inn í kennslustofu fulla af hormónaflæðandi einstaklingum og býst við að geta kennt þeim? Unglingum sem hafa oftast svör við öllu og hafa leyst lífsgátuna löngu á undan okkur hinum. Það gerði ég, ég er þessi fáviti og það er ótrúlega skemmtilegt og gefandi. Unglingar eru nefnilega oft vanmetin þjóðflokkur, unglingar í dag eru upp til hópa skynsamir, skapandi, metnaðarfullir, skemmtilegir, kraftmiklir og miklu meðvitaðri um samfélag sitt og tilfinningar heldur en ég var á þessum aldri.

En unglingar eiga þrátt fyrir alla þessa kosti sína margt ólært. Þar komum við fullorðna fólkið sterk inn, við getum verið þeim fyrirmyndir á margan hátt. Þó að margir unglingar hendi foreldrum sínum eins og skítugum sokkum til hliðar og setji vini sína ofar öllu á þessum árum þurfa þeir samt á okkur að halda (og þá er ég ekki bara að tala um 4G inneign eða Visakortið okkar). Þeir þurfa stuðning okkar, ást og hlýju. Þeir þurfa að finna að við séum til staðar og tilbúin að hlusta á þá og bera virðingu fyrir skoðunum þeirra og tilfinningum. Þó að þeir skelli hurðum, hunsi okkur, gefi okkur hneykslað augnaráð og láti eins og við séum hallærislegasta fólk sem nokkurn tímann hefur gengið á þessari jörð elska þeir okkur samt og við megum aldrei gefast upp á þeim.

Sem kennari skiptir það mig miklu máli að nemendum mínum líði vel í skólanum, vellíðan er forsenda alls náms. Það skiptir einnig miklu máli að heimili og skóli hjálpist að við að halda utan um ungmennin okkar. Traust þarf að ríkja og góð samskipti, það þarf samfélag til að ala upp einstakling. Höfum það á bakvið eyrað þegar unglingarnir okkar hefja nýtt skólaár. Styðjum við bakið á þeim, verum stolt af þeim og leyfum þeim að njóta sín á sínum forsendum. Hormónaölduna mun lægja og þá verða þau þakklát okkur fyrir sýnda þolinmæði.

Erna

Fyrri greinSelfoss sigraði á Ragnarsmótinu
Næsta grein„Ég ætlaði mér að komast í úrslit“