Nú árið er liðið…

Í aldanna skaut, og aldrei það kemur til baka.

Ég er ekki talnaglögg manneskja, bara alls ekki, en einhverra hluta vegna hef ég alltaf verið hrifnari af sléttum tölum en oddatölum. Það er bara eitthvað fallegt við það að geta skipt jafnt til helminga.

Árið 2017 var erfitt að mörgu leyti, en það er eins og með svo margt annað, tíminn gefur og tíminn tekur. Þess vegna er svo afskaplega mikilvægt að nýta þann tíma sem við höfum vel. Eftir erfiða tíma er fátt annað að gera en að reyna að draga einhvern lærdóm af reynslunni og halda áfram eftir bestu getu. Standa með sjálfum sér og sinni sannfæringu og leyfa jafnframt tilfinningum sínum að eiga sinn stað og veita þeim í réttan farveg.

Ég setti mér markmið fyrir árið 2017 og ég held að ég hafi náð að standa við það að mestu leyti. Ég ætlaði að vera góð, góð við sjálfa mig og aðra. Fyrir árið 2018 ætla ég að leitast við að halda jafnvægi, jafnvægi í í lífinu. Jafnvægi er mér afskaplega mikilvægt… ég næ ekki alltaf að halda því… oftast ekki því að lífið grípur inn í og raskar jafnvæginu, vinnan, skutlið, svefninn, heimilisstörfin, kvíðinn, kröfur, veðrið og hlutir sem maður hefur stjórn á eða ekki. Ef ég næ að halda jafnvægi, bæði andlegu og líkamlegu þá líður mér best.

Ég vona að þið lesendur góðir náið ykkar jafnvægisfleti á nýju ári. Áramótin eru tímamót og margir setja sér markmið um að gera betur, ná lengra, læra og þroskast meira. Margir horfa yfir farin veg og meta stöðu sína. Ég vona að þið náið ykkar markmiðum hversu stór eða smá sem þau eru. Munið bara að þó að þið náið þeim ekki þýðir ekki að þið séuð taparar. Það þýðir að þið gerðuð ykkar besta en markmiðið var kannski of stórt. Verið sanngjörn við ykkur sjálf, ekki setja of miklar kröfur á ykkur. Við erum öll að hamast við að gera okkar besta og meira getum við ekki gert.

Ég vil þakka ykkur fyrir að nenna að lesa þessa mismerkilegu og misgáfulegu þanka mína á árinu og um leið óska ykkur öllum gleði og hamingju á nýju ári, megi árið 2018 vera okkur gjöfult og gott.

Ást og friður,
Erna

Fyrri greinSkora á yfirvöld að bregðast við breyttum aðstæðum
Næsta greinGöngumaður í vanda austan Hofsjökuls