Bleika slaufan

Í október á hverju ári vekur krabbameinsfélagið athygli á brjóstakrabbameini með átaki sínu.

Umræðan um brjóstakrabbamein er mjög mikilvæg því að brjóstakrabbamein er algengasta krabbamein íslenskra kvenna en lífslíkur eru mun betri í dag en þær voru, þökk sé rannsóknum og eftirliti. Þó eru um 40 konur á ári sem tapa baráttunni.

En þó að átakið beinist að brjóstakrabbameini þurfum við að vera meðvituð um allar gerðir krabbameins. Alltof margir greinast með þennan sjúkdóm og alltof margir tapa baráttunni við hann.

Alltof margar fjölskyldur þurfa að lifa í ótta, óvissu og óöryggi í baráttunni við krabbamein.

Krabbamein fer nefnilega ekki í manngreiningarálit.

Ég þekki fólk sem hefur barist hetjulega og með mikilli reisn en samt tapað, ég þekki fólk sem hefur barist hetjulega og með mikill reisn og unnið, ég þekki fólk sem berst núna hetjulega og með mikilli reisn og enn með von í hjarta um að sigrast á þessum andstyggilega sjúkdómi.

Átak sem þetta skiptir ótrúlega miklu máli til þess að hjálpa við að fjármagna rannsóknir og tækjakaup í tengslum við krabbamein.

Lífið er óútreiknanlegt og enginn veit hvaða verkefni við þurfum að takast á við. Þegar ég kaupi bleiku slaufuna mun ég bera hana og hugsa til allra þeirra sem hafa gengið í gegnum þá þolraun að berjast við krabbamein. Allt eru þetta hetjur, hvort sem þær unnu eða töpuðu.

Ég hvet alla til þess að kaupa bleiku slaufuna, styrkja mikilvægt málefni og hugsa vel og fallega til allra þeirra sem hafa barist og tapað, barist og unnið eða eru enn að berjast.

Ást og friður,
Erna

Fyrri greinTveir ökumenn hópbíla sektaðir
Næsta greinBrautryðjendur heiðraðir í Selfosskirkju