Umræðan

Ég á dóttur á unglingsaldri, hún er svo mikill móðurbetrungur að það væri hægt að gera heimildarmynd um það.

Hún myndi líklegast bera nafnið ,,Næsta kynslóð: hvernig óþroskuðum bjána tókst að ala upp heilsteyptan og upplýstan einstakling“. Ég get að sjálfsögðu ekki tekið allan heiðurinn að þessari manneskju, það þarf samfélag til þess að ala upp barn og það er einmitt málið, samfélagið.

Samfélagið sem hún elst upp í er svo miklu opnara og upplýstara í allri umræðu heldur en það sem ég eða foreldrar mínir ólust upp í. Umræða um allskonar málefni er allt í kringum hana og ekkert málefni er svo viðkæmt að það megi ekki ræða það.

Hún var einmitt viðstödd frægan fermingarfyrirlestur í Selfosskirkju þar sem Sigga Dögg kynfræðingur sýndi verðandi fermingarbörnum meðal annars myndir af allskonar typpum og píkum. Hún ræddi kynlíf og samskipti við þau á mjög opinskáan hátt og sem foreldri fagnaði ég umræðunni og hlustaði með áhuga á upplifun dóttur minnar af fyrirlestrinum. Ég hugsaði með mér að ég hefði hoppað fram af brú frekar en að ræða svona mál við móður mína á sínum tíma.

Einhverjum foreldrum blöskraði reyndar fyrirlesturinn svo að þeir kærðu málið til lögreglunnar en ekki þótti grundvöllur til að halda áfram rannsókn málsins þar sem kæran var ekki á rökum reist.

Öll umræða er af hinu góða. Að geta rætt um áföll og tilfinningar sem dynja á okkur í lífinu hjálpa okkur að takast á við þau. Ég hef lært mjög mikilvægar lexíur af dóttur minni sem er 18 árum yngri en ég vegna þess hve óhrædd hún er við að tala opinskátt um það sem liggur henni á hjarta.

Við ræddum einmitt um daginn að druslugangan væri á næsta leiti. Við ræddum hversu mikilvæg þessi ganga er fyrir þolendur ofbeldis og hvernig ofbeldi í hvers konar mynd ætti aldrei rétt á sér. Hversu mikilvægt það er fyrir þolendur að geta skilað skömminni og fundið stuðning frá samfélaginu og halda umræðunni á lofti alltaf!

Ég hvet alla til að taka þátt í Druslugöngunni og ganga fyrir sjálfræði og sjálfstæði manneskjunnar.

Erna

Fyrri greinLitakóða Kötlu breytt í gulan
Næsta greinBanaslys í Hvítá