Skoðanir

Það er búið að vera mikið um allskonar skoðanaskipti undanfarið í samfélaginu. Til dæmis hvort að hommar sem fá sér ananas á pizzu séu góðir trommarar?

Nú ætla ég ekki að taka afstöðu í því máli en öll höfum við skoðanir á mönnum og málefnum sem við tjáum okkur mismikið um.

Að vera ósammála er gott, það kveikir umræðu um ýmis málefni og í draumasamfélagi myndu allar rökræður fara fram á yfirvegaðan hátt. Þær myndu auka fróðleik okkar á málefninu sem myndi svo dýpka skilning okkar á því. Skynsamar og siðmenntaðar rökræður myndu svo leiða af sér umburðarlynt og skilningsríkt þjóðfélag þar sem allir myndu gefa sér tíma til að hlusta á aðra, bera virðingu fyrir þeim og velta fyrir sér rökum þeirra og skoðunum. Koma svo með mótrök á kurteisan og yfirvegaðan hátt. Sem hinn aðilinn myndi á sama hátt hlusta á og bera virðingu fyrir. Við myndum aldrei blanda persónu hvers annars inn í umræðuna eða niðurlægja hana á nokkurn hátt.

Já, maður má láta sig dreyma…

Á tímum samfélagsmiðla er auðvelt að tjá skoðanir sínar og koma þeim á framfæri. Við sitjum í öruggu umhverfi bak við tölvuskjáinn og getum leyft okkur að halda það að okkar skoðun sé á einhvern hátt mikilvægari eða betri en skoðun annarra. Við leyfum okkur oft að nota særandi og niðurlægjandi orðalag sem kemur málefninu í raun ekkert við. Tökum dæmi:

„Jón er hálfviti af því að hann borðar ekki pizzu með pepperoni!“

Ef við myndum gefa Jóni tíma til þess að útskýra af hverju hann vill ekki pepperoni á sína pizzu myndum við kannski komast að því að Jón er mjög vel gefinn og skemmtilegur maður sem finnst pepperoni einfaldlega bara vont og það hefur ekkert með persónuleika hans eða vitsmuni að gera.

Áður en við tjáum skoðanir okkar skulum við stoppa og hugsa. Við vitum aldrei hver situr hinum megin við skjáinn og les það sem við sendum frá okkur. Eflaust á Jón fjölskyldu sem þykir vænt um hann og hefur sætt sig við pizzur án pepperoni og finnst ekki gaman að lesa niðurlægjandi ummæli um hann á netinu.

Við megum ekki hætta að skiptast á skoðunum og rökræða en reynum eftir fremsta megni að gera það á virðingarfullan hátt.

Erna

Fyrri greinBæjarmál í opnu húsi
Næsta greinFSu er Fyrirmyndarfélag ÍSÍ