Gamli svarti kötturinn…

Í um það bil þrjá mánuði á ári líður mér eins og ég sé með hausinn í kafi, ég fer undir yfirborðið og langar helst að vera þar á meðan myrkrið umlykur landið.

Ég tekst á við lífið með hálfum hug og hnút í maga, sinni því sem ég þarf að sinna en allt um fram það mikla ég fyrir mér og á erfitt með að takast á við. Ég leggst í árlegan dvala og bíð eftir bjartari dögum.

Um miðjan október lít ég á dagatalið og eins og björn undirbý ég dvalann minn. Kannski ekki með því að safna vistum, leggjast undir sæng og sofa fram í febrúar, þó að ég væri alveg til í það.

Nei… ég undirbý mig andlega undir dvalann minn, er meðvituð um hann og reyni að gera ekki óraunhæfar kröfur til mín. Winston Churchill kallaði þunglyndi sitt svarta hundinn. Ég vil ekki ganga svo langt að kalla þetta þunglyndi en kannski mætti líkja mínum dvala meira við gamlan svartan kött.

Gamlan svartan kött sem vill bara hverfa inn í myrkrið þar sem enginn sér hann, hann nennir ekki að leika sér, hann vill bara fá að liggja í leti og hafa sem minnst fyrir hlutunum. Gamli svarti kötturinn hverfur inn í myrkrið í nóvember, desember og janúar.

Í febrúar kem ég hægt og rólega aftur upp á yfirborðið, dreg andann djúpt og fylli lungun af fersku lofti. Líkaminn fyllist aftur orku með hækkandi sól og bjartari dögum. Ég kem aftur til sjálfrar mín og er tilbúin að takast á við lífið aftur með heilum hug.

Það er ótrúleg tilfinning, bæði að fara í kaf og koma aftur upp á yfirborðið.

Á hverju ári kemur myrkrið og á hverju ári birtir aftur. Ef ég kemst í gegnum myrkrið getum ég glaðst og notið bjartari og betri daga og sagt gamla svarta kettinum að hypja sig!

Þangað til hann lallar í rólegheitum til mín aftur í nóvember.

Erna

Fyrri greinBjörgunarsveitir aðstoða ökumenn
Næsta greinVarað við mjög slæmu veðri