Sameinuð

Ísland er lítið land með minni þjóð. Við erum fá og þegar á þarf að halda stöndum við saman og sýnum samhug og styrk. Okkur er annt hvert um annað og við sameinumst í gleði og sorg.

Undanfarið hefur það sýnt sig hvernig við höfum sameinast á milli vonar og ótta í leitinni að Birnu Brjánsdóttur.

Við fylgjumst með fréttum og reynum að útskýra og ræða við börnin okkar um hvarf hennar en það er erfitt að útskýra eitthvað sem er svo óskiljanlegt. Það vakna margar stórar spurningar en of fá svör. Við megum samt ekki ala á ótta, vantrausti og fordómum. Frekar leggja inn hjá börnum okkar hve mikilvægt það er að við stöndum saman, styrkjum og pössum upp á hvert annað. Að við sýnum kærleik og virðingu með orðum og gjörðum.

Við megum heldur ekki gleyma, við megum ekki gleyma Birnu og aðstandendum hennar. Við skulum minnast hennar með því að fræða, tala saman og sýna í verki að trú, von og kærleikur er illskunni yfirsterkari. Að ofbeldi sé aldrei í lagi í hvaða formi sem er. Að sameinuð séum við sterkari.

Hugur minn er hjá Birnu, fjölskyldu hennar og vinum sem hafa sýnt ótrúlegt hugrekki í ólýsanlegri sorg.

Erna

Fyrri greinGuðmundur Karl íþróttamaður Ölfuss 2016
Næsta greinDaði Rafns fer til Kína