Stakkaskipti í fjárhúsi

Listasýningin Stakkaskipti opnar með viðhöfn kl. 16:00 laugardaginn 25. ágúst í gamla fjárhúsinu norðan við Húsið á Eyrarbakka. Danslistakonan Gio Ju frá Suður Kóreu mun fremja gjörning við opnun og listamenn taka vel á móti gestum.

Fjórar ólíkar listakonur sýna saman á Stakkaskiptum. Þetta eru þær, Halla Ásgeirsdóttir keramiker, Halla Bogadóttir gullsmiður, Helga Ragnhildur Mogensen skartgripahönnuður og Margrét Birgisdóttir myndlistarmaður. Þær eiga það sameiginlegt að sækja innblástur úr náttúru eða vinna verk sín úr náttúrulegum efnum líkt og rekaviði eða steinum. Allar hafa þær sýnt margoft en sýna nú saman í fyrsta sinn.

Hugmyndin að sýningunni fæddist fyrir nokkrum árum og röð tilviljana leiddi þær á slóðir Eyrarbakka. Þær heilluðust af þeirri hugmynd að umbreyta grófu umhverfi eins og gamla fjárhúsinu í sýningarsal og þannig er nafnið Stakkaskipti tilkomið því sannarlega mun fjárhúsið umbreytast.

Gio Ju er víðförul hreyfilistakona og butoh dansari sem heimsækir Ísland í fyrsta sinn. Dansverk hennar eru ávallt einstök og tengd inní aðstæður hverju sinni. Það verður því afar áhugavert að sjá hvernig hún tvinnar sína list saman við sýninguna.

Stakkaskipti er hluti af sumardagskrá Byggðasafns Árnesinga í tengslum við sýningu Ástu Guðmundsdóttur Marþræðir, sem hverfis um fullveldið og fjörunytjar. Sú sýning teygir sig yfir í eitt útihúsa safnsins og þannig verða nú listasýningar í tveimur útihúsum.

Sýningarnar í útihúsunum verða opnar kl. 11-18 fram í septemberlok eins og aðrar sýningar safnsins. Við opnun verður frítt á Stakkaskipi og safnið allt og léttar veitingar í boði. Verið velkomin.

Viðburðurinn er styrktur af Uppbyggingasjóði Suðurlands

Fyrri greinHauk­ur val­inn besti leikmaður EM
Næsta greinSamið um smáþörungarækt í Jarðhitagarði ON