Ævintýri á gönguför með Leikfélagi Selfoss

Í tilefni af 60 ára afmæli Leikfélags Selfoss á þessu ári munu leikfélagar, og aðrir sem áhuga hafa, ganga í fjórum áföngum frá Reykjum í Mosfellsbæ á Selfoss.

Um er að ræða leik- og gangverk undir yfirskriftinni Ég held ég gangi heim „Ævintýri á gönguför“ í leikstjórn og leiðsögn Gústavs Stolzenwald (Stolza).

Verkið mun hefjast að Reykjum í Reykjadal í Mosfellsbæ þar sem nokkrir félagar úr Leikfélagi Selfoss munu leggja af stað heim, leggja land undir fót og ganga á fjórum dögum yfir fjöll og fyrnindi, utan alfaraleiða á Selfoss. Nánar tiltekið þá endar þetta ævintýri á gönguför í Litla leikhúsinu við Sigtún 1 á Selfossi og mun endir verksins verða fluttur þar. Á leiðinni verða leikræn, ljóðræn og söngleg tilbrigði lífs og náttúru höfð í hávegum og munu leikfélagar sem og allir aðrir sem vilja fylgja þeim, spinna saman ljúfa daga.

Þessi ferð er farin í tilefni þess að Leikfélag Selfoss er 60 ára á árinu og hugsuð til að styrkja andann, sem og fjárhag félagsins. Hver dagleið mun kosta 1.000 kr sem rennur óskipt til Leikfélags Selfoss, og þar að auki kostar far með rútu 2.000 kr fyrir þá sem það kjósa. Þessi ganga er 60 km löng sem hæfir tilefninu vel, auðvitað gæti vantað aðeins upp á þá vegalengd, en þá dönsum við bara það sem uppá vantar.

Verkið er í fjórum þáttum þar sem hver þáttur er sjálfstætt verk, og tekur hver þáttur einn dag og er þetta því sennilega eitt af lengstu leikverkum Íslandssögunnar. Vonandi sjá sér margir fært að koma með og taka þátt, því hver og einn mun setja mark sitt á verkið sem fullgildur leikari og göngumaður. „Góður göngumaður gengur ekki fram af öðrum,“ segir í tilkynningu frá leikfélaginu.

__________________________________________________

Leikmynd og tímarammi:

– Dagur eitt (Laugardagur 11. ágúst): Gengið frá Reykjum í Mosfellsbæ um Reykjaborg, Þverfell og Lyklafell að Litlu-Kaffistofunni við Svínahraun.

– Dagur tvö (Laugardagur 18. ágúst): Gengið frá Litlu-Kaffistofunni gamla þjóðveginn í átt að Kolviðarhól og haldið upp Húsmúlann og um Innstadal og Hengladali allt til enda dagleiðarinnar á Ölkelduhálsi.

– Dagur þrjú (Sunnudagur 19. ágúst): Gengið frá og um Ölkelduháls að Ölkelduhjúk og í botn Reykjadals og þaðan um hnjúka og skörð niður í Dalakaffi og þaðan um skógarstíga innan Hveragerðis og austur að gróðurstöðinni Nátthaga.

– Dagur fjögur (Laugardagur 1. sept): Gengið frá Nátthaga um Grafningsháls á Inghól á Ingólfsfjalli og þaðan sem leið liggur að vörðunni ofan við Þórustaðanámuna, og síðan gamla þjóðveginn í Litla leikhúsið við Sigtún þar sem endir leik og gangverksins verður fluttur.

Allar dagleiðirnar eru sirka 14-15 Km og er reiknað með að gangan geti tekið allt frá 5 til 8 klukkustundir, eftir því hvað verður gaman!

__________________________________________________

Þar sem fjöldatakmörkun er á þátttöku og rútur notaðar til flutninga þá komumst við ekki hjá því að biðja fólk um að skrá sig. Hægt er að skrá sig á gongufor@leikfelagselfoss.is og þarf skráningin að fara fram í síðasta lagi 2 dögum fyrir brottfaradag hverrar dagleiðar. Skilgreina þarf hvort fólk vill skrá sig í rútu eða vera á eigin vegum með far. Hafa þarf 1.000 kr í reiðufé með fyrir hverja dagleið fyrir styrkinn til Leikfélags Selfoss og svo fyrir rútunni.

Viðburðurinn á Facebook

Fyrri greinEllefu óhöpp og eitt alvarlegt slys í dagbók lögreglu
Næsta greinÁtjánda flugeldasýningin á Jökulsárlóni