Sunnan yfir sæinn breiða

„Sunnan yfir sæinn breiða“ er yfirskrift næstu tónleika á tónlistarhátíðinni Englar og menn í Strandarkirkju í Selvogi sunnudaginn 29. júlí næstkomandi kl. ​​14.

Þar koma fram t​ónlistarfeðginin ​góðkunnu á Eyrarbakka ​Valgeir Guðjónsson og Vigdís Vala ​og ​flytja saman þekkt lög og minna þekkt úr tón- og textasmiðjum sínum. Lög og umfjöllunarefnin spanna breiðan boga, eins og títt er hjá englum og mönnum, þar sem blandast saman andakt, æðruleysi og glaðværð .

Valgeir er flestum kunnur fyrir lög sín og texta og hermt er að margt þenkjandi fólk og flest greindari húsdýr sé​u​ með á nótunum. Verk Valgeirs spanna víðan völl og hafa hljómað í eyrum þjóðarinnar í 48 ár og rúmlega þremur mánuðum betur um þessar mundir.

Vigdís Vala er 25 ára gömul. Hún hóf ung að aldri að semja lög og ljóð og 18 ára færði hún föður sínum í sextugsafmælisgjöf lagið Hýjalín sem hún flutti fyrir fullu húsi í Eldborgasal Hörpu. Nú um stundir leggur Vigdís gjörva hönd á margt, heldur áfram að stunda tónsmíðar og textagerð og kemur fram ýmist ein og sér eða með föður eða öðrum samhliða námi sínu á doktorsstigi í rannsóknasálfræði.

Aðgangseyrir ​að tónleikunum ​er kr. 2.900. Miðasala er við innganginn.

Tónleikarnir hefjast kl. 14 og eru um klukkustundar langir.

Björg Þórhallsdóttir sópransöngkona er listrænn stjórnandi og framkvæmdastjóri hátíðarinnar, sem er styrkt af Sambandi sunnlenskra sveitarfélaga og Strandarkirkjunefnd.

Fyrri greinGjaldtaka í Skálholti hefst í september
Næsta greinÞorsteinn ráðinn framkvæmdastjóri handknattleiks-deildarinnar