Bókin Trjáklippingar endurútgefin

Bókin „Trjáklippingar“ sem hefur verið ófáanleg um nokkurt skeið hefur nú verið gefin út í þriðja sinn.

Með þessari bók Steins Kárasonar garðyrkjufræðings um trjáklippingar fá gróðurunnendur og trjáræktarfólk í hendur kærkomið heildstætt verk er lítur að þessum mikilvæga þætti í garðrækt og skógrækt.

Í bókinni er fjallað um klippingu á um 140 algengum trjá- og runnategundum, lítillega drepið á fáein blóm, auk þess sem nefnd eru um 50 rósaafbrigði sem vænleg eru til ræktunar hér á landi. Bókin sem er 111 blaðsíður er prýdd um 180 skýringarmyndum eftir Han Veltman.

Sérstaklega er fjallað um hverning klippa skal epla- og perutré, kirsuberja- og plómutré, vínvið, tómata, gúrkur, melónur og papriku.

Klippi fólk tré og runna árlega á markvissan hátt næst betri ræktunarárangur. Hægt er að stýra vexti, hæð, blómgun og umfangi trjáa og runna með klippingu. Trjáklipping, sem unnin er á réttan hátt, gefur gróðrinum meira notagildi og meira yndis má af honum njóta.

Trjáklippingar eru vandasamt verk en góður árangur næst aðeins með æfingu og haldgóðri þekkingu á hverri tegund. Aðal klippingatíminn er að vetri meðan gróðurinn er í mestri hvíld, enda er þá hægast að átta sig á vaxtarlaginu. En einnig þarf að klippa að vori, sumri og hausti, allt eftir tegundum og aðstæðum.

Í Trjáklippingabókinni eru veitt hagnýt ráð um trjárækt. Sér kafli er í bókinni um lífrænar varnir gegn meindýrum og drepið er á þýðingarmikla þætti er varða lífvæna ræktun sem er þungamiðjan í umræðunni um sjálfbærni og hollustu og verndun lífríkisins.

Höfundurinn, Steinn Kárason lauk námi í ylrækt og garðplöntuuppeldi og er skrúðgarðyrkjumeistari. Hann var ritstjóri garðyrkjutímarita um skeið og hefur meðal annars kennt við Garðyrkjuskólann, starfað sem garðyrkjuráðunautur og fjallað um garðyrkju í fjölmiðlum.

Steinn stundaði síðar framhaldsnám í Danmörku, Finnlandi og S-Afríku og lauk MSc gráðu í umhverfisfræðum frá Álaborgarháskóla. Um margra ára skeið sinnti hann stundakennslu í umhverfisfræðum við háskólann á Akureyri og við háskólann á Bifröst.

Útgefandi er Garðyrkjumeistarinn ehf.

Því má svo bæta við að sjónvarpsþátturinn „Trjáklippingar og umhirða trjáa og runna“ sem Steinn gerði árið 2000 með Hákoni Má Oddssyni verður endursýndur á RÚV fimmtudaginn 24. maí kl. 16:50 og aftur laugardaginn 26. maí kl. 11:30.

Fyrri grein„Í þessu formi er rófan ofurfæða“
Næsta greinNýir skyrtankar hífðir inn í mjólkurbúið