Trylltir fönkslagarar og mjúkar jazzmelódíur

Í kvöld, þriðjudaginn 1. maí, kl. 19 mun Sigurgeir Skafti Flosason bassaleikari frá Selfossi halda burtfarartónleika sína frá Tónlistarskóla FÍH/MÍT í hátíðarsal skólans, Rauðagerði 27 Reykjavík.

Sigurgeir Skafti, sem lauk kennaradeild FÍH árið 2016, hefur farið víða með bassann í gegnum tíðina. Þekktastur er hann líklega sem bassaleikari Stuðlabandsins en hann hefur einnig leikið undir með Unni Birnu og fjölmörgum öðrum verkefnum.

„Ég byrjaði að læra á gítar hjá Guðmundi Benediktsyni og þaðan lá leiðin yfir í Tónsmiðjuna hja Stefáni Þorleifsyni og Trausta Einarssyni. Eftir einn vetur þar fór ég í Tónlistarskóla Árnesinga og lærði á kontrabassa hjá Pawel Panasiuk og það lá leiðin til Reykjavíkur í Tónlistarskóla FÍH, þar sem ég hef lært á raf- og kontrabassa undir handleiðslu Birgis Bragasonar og Gunnars Hrafnssonar,“ segir Sigurgeir Skafti í samtali við sunnlenska.is.

Einu kringumstæðurnar að spila þetta á eigin tónleikum
Aðgangur að tónleikunum í kvöld er ókeypis og allir velkomnir – börn, fullorðnir og gamalmenni. Og tónleikagestir eiga von á fjölbreyttu lagavali en Sigurgeir Skafti mun fremja tryllta fönkslagara í bland við mjúkar jazzmelódíur ásamt öðrum afburðafínum tónlistarmönnum.

„Til að útskýra þetta betur samanstendur prógrammið af einhverju sem enginn þekkir og í raun er einu kringumstæðurnar til að spila það á eigin tónleikum. Þetta eru til að mynda lög eftir Joshua Redman, Avishaii Cohen, Chick Corea, John Scofield og fleiri snillinga. Funk-grúv skotið prógram með jazzi inná milli og jafnvel einhvað óvænt,“ segir Sigurgeir Skafti.

Hann verður alls ekki einn á sviðinu með fimmstrengjabassann í kvöld því á saxófón mun freta Steinar Sigurðarson, bumburnar ber Skúli Gíslason, gítarglamur verður í höndum Ásgeirs Ásgeirssonar, um fiðlusarg og annað org sér Unnur Birna Björnsdóttir og hamrar Magnús Jóhann Ragnarsson slaghörpuna og hammondið.

Facebookviðburður burtfarartónleikanna

Fyrri greinTveggja marka forgjöf Skagamanna
Næsta greinMaður í sjálfheldu við Skaftafellsjökul