Hrafnhildur Inga sýnir í Gallerí Fold

Hrafnhildur Inga Sigurðardóttir opnar einkasýningu í Gallerí Fold sem nefnist “Gul viðvörun” á nýjum verkum þann 14. apríl. Verkin hennar sýna veðurfar, sjólag sem og skýjagljúfur sem myndast einna helst úti við sjó.

Himin, haf og jörð renna oft saman í mikið óveður og vatnsmikil læti. Mikil orka og magnþrungið augnablik verka hennar gefa manni hugmynd um hversu sterk og hörð móðir náttúra getur verið.

Hrafnhildur sækir myndefnið oft á sínar heimaslóðir í Fljótshlíðinni þar sem hún hefur útsýni eftir suðurströndinni. Þar myndast oft dularfullur skýjahræringur á milli Eyjafjallajökuls og Þórsmerkur.

Hrafnhildur Inga Sigurðardóttir fæddist að Vestur-Sámsstöðum í Fljótshlíð og ólst þar upp. Hún stundaði myndlistarnám um 6-7 ára skeið og lauk meðal annars prófi í grafískri hönnun frá Myndlista- og handíðaskóla Íslands og Listaháskóla Íslands.

Sýningin stendur til og með 28. apríl.

Fyrri greinLárus og Birgir heiðraðir af KKÍ
Næsta greinGlæsileg upplestrarkeppni í Mýrdalnum