Kerlingabækur í Tryggvaskála í kvöld

Haustmálþing Bókabæjanna austanfjalls verður haldið í Tryggvaskála á Selfossi í kvöld og verður boðið upp á fjölbreytta dagskrá. Yfirskrift kvöldsins er „Kerlingabækur“.

„Málþingið er árlegur viðburður sem ævinlega er þematengdur. Hugmyndin um að hafa þemað „kerlingabækur“ kviknaði útfrá umræðu um vinsældir Guðrúnar frá Lundi, hún er ennþá metsöluhöfundur árið 2017,“ segir Harpa Rún Kristjánsdóttir, en hún sér um dagskrárstjórn kvöldsins ásamt Jóni Özuri Snorrasyni.

„Yfirskrift kvöldsins hefur vakið athygli, sérstaklega vegna tvíþættrar merkingar orðsins. Það að nota hugtakið um kvennabókmenntir er komið frá Sigurði A. Magnússyni, sem sagði framtíð bókaþjóðarinnar liggja á herðum nokkurra kerlinga og vísaði þar til Guðrúnar frá Lundi og fleiri kvenna,“ bætir Harpa við.

Dagný Kristjánsdóttir, prófessor, fjallar um kerlingabækur og kvennabókmenntir og Birgir Dýrfjörð mun segja frá æskuminningum tengdum skáldinu Guðrúnu frá Lundi, en þau voru sveitungar í eina tíð. Þá mun Guðrún Eva Mínervudóttir segja frá ferli sínum og lesa úr völdum verkum.

Einnig verður boðið upp á söng og leik, Hera Hjartardóttir mun flytja frumsamin lög og Leikfélag Selfoss sýnir brot úr verkinu Vertu svona kona, sem frumsýnt verður í nóvember. Þá mun Ljóðahópurinn Svikaskáldin troða upp.

Fyrri greinSex sækja um skólastjórastöðu
Næsta greinBæjarskrifstofan í nýtt húsnæði