Íslensk frumsýning á Selfossmynd

Stuttmyndin Sjáumst eftir Brúsa Ólason frá Litlu-Sandvík verður meðal þeirra kvikmynda sem sýndar verða á Reykjavík International Film Festival (RIFF) en hátíðin er haldin dagana 28. september til 8. október.

„Ég vil fá að sjá fullan sal af Sunnlendingum á íslensku frumsýninguni á þessari Selfossmynd minni. Ég er gríðarlega spenntur fyrir hátíðinni, sérstaklega þar sem ég fæ að svara spurningum um þrjár mismunandi myndir. Eina sem ég klippti og aðra sem ég framleiddi í skólanum hérna úti – í viðbót við Sjáumst auðvitað,“ segir Brúsi í samtali við sunnlenska.is en hann leggur stund á leikstjórn og handritaskrif í Columbia háskólanum í New York í Bandaríkjunum.

Sjáumst var tekin upp á Selfossi og í Litlu-Sandvík fyrrasumar og segir frá síðasta degi fótboltastráks á Selfossi áður en hann flytur út í atvinnumennsku.

Sjáumst verður sýnd tvisvar á hátíðinni, klukkan 22:00 föstudaginn 29. september í Háskólabíói og klukkan 18:00 föstudaginn 6. október í Norrræna húsinu. Brúsi mun svara spurningum áhorfenda eftir sýninguna í Háskólabíói.

Fyrri greinÖll lögbýli tengd fyrir lok árs 2019
Næsta greinÍbúafundur og opið hús á Flúðum í kvöld