Vefsetur um íslenskar skáldkonur

Þann 7. september síðastliðinn opnaði vefur um íslenskar skáldkonur, www.skald.is. Að verkefninu standa Ásgerður Jóhannsdóttir og Jóna Guðbjörg Torfadóttir.

Vefurinn hverfist um konur og skáldskap þeirra og verður leitast við að birta þar viðburði, fréttir, greinaskrif og fagurfræðilega texta um konur, eftir konur. Þar er einnig að finna skáldatal íslenskra kvenskálda.

Í fréttatilkynningu segir að vefurinn sé unninn í sjálfboðavinnu og af hugsjón einni saman; lagt er upp í langferð sem sér ekki fyrir endann á svo lengi sem konur stinga niður penna – hvergi sést hilla undir síðustu skáldkonuna.

Von þeirra sem að vefnum standa er að hann eigi eftir að stækka og dafna og verða verðugur vettvangur fyrir íslenskar skáldkonur. Skáldatalið er í vinnslu og bætast ný skáld við vikulega.

Allar konur sem skrifað hafa um kvennabókmenntir eða gefið út skáldskap eru hvattar til að senda inn efni til birtingar á skald@skald.is.

Skáld.is

Fyrri greinSautján tillögur bárust
Næsta grein„Skammsýni að fjölga ekki hjúkrunarrýmum“