Endurspeglun Ísabellu í Listagjánni

Endurspeglun, myndlistarsýning Ísabellu Leifsdóttur í Listagjá Bókasafni Árborgar opnar þann 9. ágúst klukkan 13:00

Hvernig líður þér að horfast í augu við neysluna, draslið sem við gefum börnunum okkar. Hvaða skilaboð erum við að senda þeim og hvaða framtíð erum við að byggja fyrir þau?

Endurspeglun er sýning á speglum sem eru skreyttir með plastdóti sem var á leið í endurvinnslu. Dóti sem segir ýmislegt um hvað við veljum fyrir framtíðarkynslóðirnar. Speglarnir eru fallegir og eigulegir munir enda tilgangurinn að búa til verk sem fólk vill ekki henda í ruslið heldur halda upp á til að fegra heimilið sitt og til að minna sig á að velja vandlega í hvert sinn sem kortið er rétt fram til að kaupa eitthvað.

Einnig verður talsvert af skarti sem Ísabella hefur ýmist lagað eða uppunnið úr smádóti. Borð verður á staðnum þar sem börn og fullorðnir geta spreytt sig á uppvinnslu.

Ísabella verður á staðnum frá opnun kl.13:00 til kl. 17:00 þann dag þar sem hún leiðir fólk um sýninguna og aðstoðar börn og fullorðna við að uppvinna dót og skart. Ýmis efniviður verður á staðnum og borð sem börn geta setið við, en það er líka velkomið að mæta með sitt eigið brotna skart eða smádót til að endurvinna úr.

Sýningin er styrkt af Uppbyggingarsjóði Suðurlands.

Fyrri greinMinni ölvun og víma í nótt
Næsta greinBjörgvin sjötti á Heimsleikunum