Sumartónleikar hefjast um helgina

Í Skálholtskirkju. Mynd úr safni.

Sumartónleikar í Skálholtskirkju hefjast um helgina. Flytjendur á fyrstu tónleikunum eru Sönghópurinn Hljómeyki undir stjórn Mörtu Halldórsdóttur og Guðný Einarsdóttir,orgelleikara.

Hljómeyki flytur tvær efnisskrár; á laugardag kl. 14.00 er verkið Ljósbrot eftir John Speight á dagskrá en það var samið fyrir Sumartónleika í Skálholti og frumflutt árið 1991. Verkið er innblásið af steindum gluggum Gerðar Helgadóttur í Skálholtskirkju og með þessu vilja Sumartónleikarnir vekja athygli á þessum þjóðargersemum og benda á söfnun Verndarsjóðs Skálholtskirkju fyrir þeirri kostnaðarsömu viðgerð glugganna sem nú er orðin óhjákvæmileg.

Kl. 13.00 á laugardag flytur sr. Karl Sigurbjörnsson biskup og formaður Skálholtsfélagsins hins nýja, erindi í Skálholtsskóla um glugga Gerðar Helgadóttur.

Seinni efnisskráin nefnist Locus iste og er á dagskrá kl. 16. Þar flytur Hjómeyki ásamt Mörtu Halldórsdóttur og Erni Magnússyni fjölbreytta kirkjulega efnisskrá sem öll tengist húsi Drottins.

Þættir úr Ljósbroti verða fluttir í messu kl. 11 á sunnudag og kl. 14 verður efnisskráin Locus iste endurflutt.

Aðgangur er að venju ókeypis en frjálsum framlögum veitt móttaka við kirkjudyr. Kaffihlaðborð er á boðstólum í Skálholtsskóla báða dagana frá kl. 15.00.

Fyrri greinHelgur hljómur í Strandarkirkju
Næsta greinGengið frá Hraungerði að Ólafsvöllum