„Einstakt sjónarspil sem enginn ætti að láta framhjá sér fara“

Helgina 29. júní til 2. júlí verður tónlistarhátíðin Sælugaukur haldin í Skálholtskirkju. Hátíðin er hluti af fjáröflun í Verndarsjóð Skálholtsdómkirkju en gluggar kirkjunnar liggja nú undir skemmdum.

Allur ágóði af tónleikunum fer í verndarsjóðinn.

„Upphaflega ætluðum við einungis að halda eina tónleika en hugmyndin vatt uppá sig, fleiri tónlistarmenn bættust í hópinn og úr varð tónlistarhátíðin Sælugaukur. Skálholt er eftirsóttur staður til tónsköpunar og hljómburður Skálholtskirkju engu líkur,“ segir María Sól Ingólfsdóttir sem sér um að skipuleggja hátíðina ásamt Ernu Völu Arnardóttur.

„Allir tónlistarmenn og skipuleggjendur gefa vinnu sína við hátíðina. Gestir eru hvattir til að veita frjáls styrktarframlög sem renna óskipt í Verndarsjóð Skálholtsdómkirkju til að fjármagna viðgerðir á gluggum kirkjunnar,“ segir María Sól.

Að sögn Maríu Sólar er dagskrá Sælugauks bæði fjölbreytt og spennandi. „Á dagskránni verða meðal annars einleiksverk, kammermúsík og spunaverk. Einnig verða ný og vönduð verk eftir upprennandi tónskáld. Þar á meðal eru glæný verk fyrir langspil og hljóð- og ljósskúlptúrinn Huldu, sem píanóleikarinn Lilja María Ásmundsdóttir smíðaði árið 2013. Einstakt sjónarspil sem enginn ætti að láta framhjá sér fara,“ segir María Sól en flytjendur og tónskáld Sælugauks eru allir nemendur eða nýútskrifaðir úr tónlistardeild Listaháskóla Íslands.

María Sól segir að hátíðin sé fyrir alla og að ungir áheyrendur séu sérstaklega velkomnir. „Allir tónleikarnir eru ókeypis og opnir öllum. Fjölmörg ný og spennandi verk hljóma á viðburðum Sælugauks í bland við íslenska og erlenda klassík.“

Sem fyrr segir er hátíðin haldin helgina 29. júní til 2. júlí. Þennir tónleikar verða í Skálholtsdómkirkju og fernir við flygilinn í Skálholtsskóla.

Allar nánari upplýsingar um hátíðina má finna á Facebook-síðu Sælugauks.

Hátíðin er styrkt af Listaháskóla Íslands, Kaffitár, Garðyrkjustöðinni Engi, GRAFÍK og Skálholtsstað.

Fyrri greinLíney elsti keppandinn á Landsmóti 50+
Næsta greinKaramellu-kókoskúlur