Óperan Gianni Schicchi sýnd á Flúðum

Óperudeild Söngskóla Sigurðar Demetz sýnir óperuna Gianni Schicchi eftir Giacomo Puccini í Félagsheimili Hrunamanna þriðjudagskvöldið 23. maí k. 19:30.

Gamanóperan Gianni Schicchi fjallar um erfðamál og græðgi Buoso fjölskyldunnar. Moldríkur ættfaðirinn hefur látist og fjölskyldan hefur heyrt orðróm að hann ætli sér að láta klaustri í nágrenninu eftir allar sínar eigur. Fjölskyldan leitar erfðarskrárinnar og kemst að því að orðrómurinn er réttur. Nú eru góð ráð dýr en Rinuccio, einn af skyldmennum hins látna, stingur upp á að leitað verði til Gianni Schicchi sem er þekktur fyrir að vera slóttugur. Eftir langt þref mætir Schicchi á staðinn og upphefst mikið sjónarspil.

Gianni Schicchi er eitt af lykilverkum Puccinis og verður óperan flutt á ítölsku en verður íslenskum texta varpað á skjá. Titilhlutverk óperunnar á þriðjudag verður sungið af heimamanninum Guðmundi Eiríkssyni frá Silfurtúni.

Leikstjóri sýningarinnar er Bjarni Thor Kristinsson og hefur Antonía Hevesi verið æfingastjóri tónlistarinnar en hún leikur á báðum sýningum á slaghörpuna. Elsa Waage hefur séð um ítölskuþjálfun nemendanna.

Fyrri greinSauðfé tekið úr vörslu eiganda
Næsta greinEmil Karel með landsliðinu á Smáþjóðaleikana