Hálfníræður með einkasýningu í ART67

Gísli Sigurðsson, fyrrverandi kennari við Fjölbrautaskóla Suðurlands, er gestalistamaður gallerís ART67 við Laugaveg 67 í maímánuði og eru allir velkomnir á opnun sýningarinnar laugardaginn 6. maí nk., milli kl. 14-16.

Gísli hefur haldið nokkrar myndlistarsýningar í gegnum tíðina, síðast fyrir tveimur árum í Listagjánni á Selfossi. Hann hefur einnig tekið þátt í ýmsum samsýningum, m.a. með Ruth Hansen á Selfossi árið 1985 og með Katrínu dóttur sinni, sem sýndi leirlist, í Reykjavík í apríl 2009.

Gísli er hálfníræður, fæddur 23.11.1931 í Vestmanneyjum og byrjaði hann ungur að teikna bæði blýants- og tússmyndir og fljótlega einnig pastel- og olíumyndir. Hann nam myndlist við Handíðaskólann í Reykjavík um miðja síðustu öld og stundaði myndlistarnám við Kúnstakademíuna í Vínarborg á árunum 1955-1960, á sama tíma og hann lærði eðlis- og efnafræði við Tækniháskólann þar.

Heimkominn settist Gísli að á Selfossi og gerðist kennari við Gagnfræðaskólann þar og síðan Fjölbrautaskóla Suðurlands þegar hann hóf starfsemi. Kenndi Gísli í samtals 40 ár á Selfossi og helming þess tíma, eða í 20 ár, var hann einnig ritstjóri blaðsins Þjóðólfs, sem þar var gefið út á árunum 1962 til 2004.

Gísli leitar víða fanga í listsköpun sinni, þar á meðal í Norrænni goðafræði, ein og sjá má á meðfylgjandi myndum sem sýna Loka í fjötrum og glímu Þórs við Elli kerlingu. Þessar myndir, ásamt fleiri verkum Gísla, verða til sýnis í gallerí ART67 við Laugaveg 67 í Reykjavík út maímánuð en sýningin verður opin alla virka daga kl. 11-18 og kl. 11-16 um helgar, frá 6. maí nk.

Hér að neðan er ein mynda Gísla, Glíma við ellikerlingu.

Fyrri greinSkyrgerðin endurgerð og opnar á morgun
Næsta greinNetkosning um leikmann ársins í Ísrael