Breiðholt í kvöld og Flúðir á laugardag

Karlakór Selfoss heldur áfram vortónleikaröð sinni í kvöld með tónleikum í Fella- og Hólakirkju í Breiðholti.

Kórinn flytur þar söngdagskrá sem er afrakstur skemmtilegs vetrarstarfs sem einkennst hefur af miklum metnaði kórmanna, sem nú telja um sjötíu manns.

Stjórnandi kórsins er Skarphéðinn Þór Hjartarson og undirleikur er í höndum Jóns Bjarnasonar. Þá leikur harmonikkuleikarinn Jón Þorsteinn Reynisson með kórnum á tónleikunum.

Meðal sönglaga sem flutt eru á tónleikunum eru verk eins og hið þekkta lag Sailing, sem Rod Stewart gerði vinsælt, hið ódauðlega O Sole Mio, Mig langar heim, sem var sérstaklega samið fyrir kórinn, sem og klassísk sönglög úr fórum kórsins, svo sem Árnesþing, Öræfasýn, Úr útsæ rísa og fleiri þekktar karlakóraperlur.

Lokatónleikar kórsins eru sem fyrr haldnir á Flúðum og það hefur jafnan verið létt yfir kórmönnum þegar komið er í Hreppinn og má búast við skemmtilegum tónleikum laugardagskvöldið 29. apríl. Því er um að gera að taka kvöldið frá.

Fyrri greinSnjókoma og lélegt skyggni á Hellisheiði
Næsta greinGróðureldur í Ölfusi