Orðsendingar frá verðlaunahöfundi

Út er komin ljóðabókin „Orðsendingar“ eftir Halldóru Thoroddsen en hún var í síðustu viku sæmd Bókmenntaverðlaunum Evrópusambandsins fyrir nóvelluna „Tvöfalt gler“ sem út kom hjá Bókaútgáfunni Sæmundi 2016.

Af þessu tilefni efna höfundurinn og Sæmundur til fagnaðar í Eymundsson á Skólavörðustíg 11 fimmtudaginn 27. apríl kl. 17 þar sem skáldið les úr nýju bókinni og skálað verður fyrir glæstum verðlaunum og nýrri bók. Hvítt og rautt í glösum, allir velkomnir.

Orðsendingar er fjórða ljóðabók höfundar en auk þess hefur höfundur sent frá sér tvö smásagnasögn og fyrrnefnda nóvellu. Orðsendingar er 61 síða og skiptist í þrjá kafla. Umfjöllunarefnin margvísleg, börn, iðjuleysingar, ástin og bréfaskipti við Lísu í Undralandi.

Í ljóðinu Veröld ný og góð hefur Guð almáttugur orðið.

Veröld ný og góð
og við gefum Guði orðið:

„Vei ó vei, þér dramblátir
sjáið þá um þetta sjálfir úr því sem komið er
ég er uppgefinn“

og eitthvað að lokum, örstutt?

„Heyrið orð mín
það er fullljóst orðið
þið eruð farnir að fikta í einfrumungnum
í uppröðun og eiginleikum ykkar minnsta bróður
ábyrgðin er ykkar
viljinn frjáls sem forðum
hjálpið honum þá að skapa nýjan mann
og plííís ekki aftur eftir minni mynd“

Fyrri greinGrýlupottahlaup 1/2017 – Úrslit
Næsta greinVortónleikar Kvennakórsins Ljósbrár