Vor í Árborg að hefjast

Skátafélagið Fossbúar hefur verið með dagskrá á Vori í Árborg á sumardaginn fyrsta.

Fjölskyldu- og menningarhátíðin Vor í Árborg 2017 fer fram dagana 20. til 23. apríl. Hátíðin hefst á sumardaginn fyrsta með opnum fjölskyldutíma í íþróttahúsinu IÐU á Selfossi þar sem fjölskyldan getur komið saman og leikið sér.

Hefðbundin skrúðganga á sumardaginn fyrsta fer af stað kl. 13:00 frá Tryggvatorgi við Ölfusárbrú og endar við skátaheimilið að Tryggvagötu 36. Skátafélagið Fossbúar og Lúðrasveit Selfoss leiða gönguna af sinni alkunnu snilld. Að göngu lokinni er boðið til hátíðardagskrár við skátaheimilið en þar geta börnin tekið þátt í fjölda þrauta og unnið sér inn stimpil í vegabréfið sem er hluti af hátíðinni.

Fjöldi viðburða hefjast eftir hádegi og má nefna sýningu í Listagjá bókasafnsins á Selfossi, málverka- og ljósmyndasýningar í Hótel Selfoss ásamt fleiri sýningum og opnum húsum. Byggðasafnið á Eyrarbakka opnar Kirkjubæ og þar geta gestir tekið þátt í vinnusmiðju og kl. 15:00 er Valgeir Guðjónsson með fuglatónleika í Eyrarbakkakirkju.

Hátíðarsetning Vors í Árborg fer síðan fram á Stað á Eyrarbakka kl. 17:00 þar sem afhentar verða heiðursviðurkenningar, ungir listamenn spila á píanó og Örlygur Ben ásamt hljómsveit spila nokkur lög. Seinna þetta sama kvöld eða um kl. 19:30 mæta þekktustu glæpasagnahöfundarnir í Rauða húsið á Eyrarbakka í boði Konubókastofunnar og í Selfosskirkju eru tónleikar með Karlakór Selfoss sem hefjast kl. 20:30.

Dagskrá Vors í Árborg er fjölbreytt líkt og áður og á föstudeginum fara elstu leikskólabörnin í söngferð um sveitarfélagið og enda kl. 11:00 í Tryggvagarði. Í Menningarverstöðinni á Stokkseyri er Elfar Guðni með málverkasýningu og Valgerður dóttir hans sýnir mosaik verk í sama húsnæði. Davíð Art Sigurðsson er fyrir framan bókasafnið á Selfoss og leyfir gestum og gangandi að taka þátt í listsköpun. Mjög skemmtilegt verkefni sem vert er að taka þátt í og fá stimpil að launum en vegabréfaleikurinn Gaman Saman er í gangi alla helgina og fylgir þátttökueyðublað með dagskrá hátíðarinnar.

Menningarviðurkenning Árborgar verður afhent í Tryggvaskála á föstudagskvöldinu kl. 20:00 og í framhaldinu mun Kvartett Kristjönu Stefáns leika fyrir gesti. Stokkseyrarkirkja mun iða af lífi á laugardeginum kl. 17:00 þegar Þorvaldur Halldórsson og Karítas Harpa Davíðsdóttir blása til tónleika í kirkjunni og auðvitað er frítt inn á þessa viðburði. Stórtónleikar Björgvins Halldórssonar fara síðan fram í Hvíta húsinu á laugardagskvöldinu kl. 21:00 og eru miðar til sölu á miði.is.

Dagskrá Vors í Árborg líkur síðan á sunnudeginum með fjallgöngu kl. 10:00 á Ingólfsfjall í leiðsögn félaga úr Björgunarfélagi Árborgar og opinni æfingu Saga Music í gamla frystihúsinu á Eyrarbakka kl. 15:00.

Fyrri greinHanna í liði ársins
Næsta greinUpplestur og myndlist í bókasafninu á Selfossi