Inga Hlöðvers sýnir í Húsinu á Eyrarbakka

Laugardaginn 8. apríl kl. 13 opnar Inga Hlöðvers myndlistarmaður sýningu í borðstofu Hússins á Eyrarbakka. Á sýningunni gefur að líta myndir af fuglum og efni tengt Eyrarbakka.

Inga Hlöðvers fæddist í Reykjavík og stundaði nám í Myndlistaskóla Reykjavíkur, Myndlista- og handíðaskóla Íslands og Academie voor Beeldende Kunst í Rotterdam, Hollandi. Á árunum 1987 til 2003 bjó hún í Hollandi og Frakklandi, tók þátt í samsýningum og hélt einkasýningar á verkum sínum á meginlandi Evrópu, í Bretlandi og á Íslandi. Um miðjan 10. áratuginn þróuðust málverk Ingu í átt að abstraktverkum af íslensku landslagi en síðan hafa þau orðið fígúratívari og myndefnið breyst. Inga býr og vinnur nú á Eyrarbakka.

Í tengslum við sýningaropnunina verður boðið upp á dagskrá kl. 15 í samvinnu við Bakkastofu. Ásta Kristrún Ragnarsdóttir og Valgeir Guðjónsson leggja út frá sýningu Ingu í tali og tónum.

Eins og áður segir opnar sýningin 8. apríl og stendur til 23. apríl kl 13-17 en á öðrum tímum eftir samkomulagi.

Að auki býður Bakkastofa upp á fuglatónleika í Eyrarbakkakirkju, dagana 9. apríl (Pálmasunnudag), 13. apríl (Skírdag) og 20. apríl (Sumardaginn fyrsta) kl. 15 í tengslum við sýningu Ingu. Valgeir Guðjónsson er þekktur fyrir lagasmíðar sínar við fuglavísur Jóhannesar úr Kötlum. Hóflegur aðgangseyrir. Dagskrá fyrir alla fjölskylduna.

Fyrri greinKartöfluvöfflur
Næsta grein„Ég er bifvélavirkinn, en ekki ökuþórinn“