Eistnaflug fékk Eyrarrósina

Tónlistarhátíðin Eistnaflug á Neskaupsstað hlaut Eyrarrósina 2017 en viðurkenningin er árlega veitt framúrskarandi menningarverkefni á landsbyggðinni.

Frú Eliza Reid, verndari Eyrarrósarinnar, afhenti verðlaunin við hátíðlega athöfn í Verksmiðjunni á Hjalteyri í síðustu viku. Annar aðstandenda hátíðarinnar er Hvergerðingurinn Stefán Magnússon.

Stefán og Karl Óttar Pétursson veittu verðlaununm viðtöku. Í þakkarræðu sinni sögðu þeir viðurkenningu af þessum toga vera afar mikilvæga fyrir Eistnaflug og þungarokk almennt, bæði sá heiður sem þeim væri sýndur og fjárstuðningurinn sem honum fylgdi.

Verðlaunin sem Eistnaflug hlýtur er fjárstyrkur; tvær milljónir króna, auk nýs verðlaunagrips sem hannaður er af Friðriki Steini Friðrikssyni vöruhönnuði.

Alþýðuhúsið á Siglufirði og Vesturfarasetrið á Hofsósi, sem einnig voru tilnefnd til verðlaunanna hlutu hvort um sig 500 þúsund krónu peningaverðlaun.

Að Eyrarrósinni standa í sameiningu Listahátíð í Reykjavík, Byggðastofnun og Flugfélag Íslands og var þetta í 13. sinn sem verðlaunin voru veitt.

Í umfjöllun dómnefndar segir að Eistnaflug sé orðin rótgróin og stöndug hátíð en um sé að ræða einu tónlistarhátíðina hér á landi þar sem höfuðáhersla er lögð á þungarokk og aðrar jaðartónlistarstefnum. Skipuleggjendur eru stoltir af góðu orðspori hátíðarinnar sem „rokkhátíðar sem fram fer í bróðerni og samstöðu“. Hátíðinni hefur tekist afburða vel að laða að innlenda sem erlenda ferðamenn á Neskaupsstað og sýna bæinn í jákvæðu og ekki síður hressilegu ljósi.

Fyrri greinAfurðir skóga á Suðurlandi kortlagðar
Næsta greinRekstri Fákasels hætt