„Fjallkóngar“ í bíó á Selfossi og Klaustri

Heimildarmyndin „Fjallkóngar“, sem fjallar um líf bænda í Skaftártungu í Skaftárhreppi, verður sýnd bæði á Selfossi og Kirkjubæjarklaustri um helgina.

Myndin er gerð af kvikmyndagerðarmanninum Guðmundi Bergkvist Jónssyni, og tók hann sér tæplega fimm ár til að gera myndina. Þar af fór hann þrjár fjallferðir að hausti með bændum úr Tungunni.

Guðmundur sagðist í samtali við Sunnlenska telja myndina vera um bændur í Skaftártungu og viðfangsefni þeirra sem þeir eiga sameiginlegt; sauðfjárræktina.

„Til að stunda hana þurfa menn afrétt, og standa saman þegar kemur að því að ná fé af fjalli,“ segir Guðmundur. Þótt deilur kunni að vera manna á milli um önnur efni, þá þarf að leggja allt slíkt til hliðar þegar að fjallferð kemur.

„Ég fylgist með bændunum á öllum árstímum, og ekki bara í fjallferðum þeirra. Ég er með myndinni að reyna að ná utanum það hvernig þeir takast á við þetta líf, þennan áhuga á sauðfé og landinu sínu,“ segir Guðmundur.

Í myndinni eru fjórir bændur í forgrunni, og það kemur vel fram í henni hversu ólíkir þeir eru.

Guðmundur Bergkvist, hefur verið starfandi kvikmyndatökumaður um árabil, lengst af hjá Ríkissjónvarpinu, en starfar nú sem dagskrárframleiðandi og sjálfstæður framleiðandi. Fjallkóngar er fjórða heimildarmynd Guðmundar, en Sunnlendingar þekkja einnig vel til myndarinnar um Reyni Pétur sem Guðmundur gerði árið 2010.

Myndin er sem áður segir sýnd í Selfossbíó um helgina, í sal 2, alls sjö sýningar, en nánar má finna upplýsingar á heimasíðu Selfossbíós. Þá er sérstök sýning í félagsheimilinu Kirkjuhvoli á Kirkjubæjarklaustri kl. 14 á laugardag.

Hér að neðan má sjá stiklu úr myndinni.

Fyrri greinBóndi sviptur 40 nautgripum
Næsta greinEldur í rafmagnsstaur – Straumlaust allt austur í Mýrdal