Ljón norðursins, kynlíf fornsagna og fleira spennandi

Fimmtudagskvöldið 1. desember kynnir Bjarki Bjarnason rithöfundur bók sína Ljón norðursins í Bókakaffinu á Selfossi, Óttar Guðmundsson segir frá kynlífi fornsagna, Magnús Hlynur Hreiðarsson kynnir mynddisk sinn, Feðgar á ferð.

Fulltrúar skáldagyðjunnar á þessu kvöldi eru ungskáldin Vilborg Bjarnadóttir með örsagnabók sína Líkham og Atli Antonsson með smásagnabókina Nýbyggingar.

Bók Bjarka um Ljón norðursins kom út um liðna helgi og byggir á viðtölum sem höfundur tók við Leó Árnason byggingameistara frá Víkum á Skaga. Óttar Guðmundsson geðlæknir sendi fyrr á árinu frá sér bókina Frygð og fornar hetjur þar sem gægst er undir rekkjuvoðir í skálum Sögualdar. Feðgarnir Fannar Freyr og Magnús Hlynur hafa gefið út diskinn Feðgar á ferð með viðtölum sem flutt voru á Stöð 2.

Gestir eru hvattir til að mæta tímanlega í Bókakaffið en þar er tekið úr lás klukkan 20 og lestur hefst hálftíma síðar eða 20:30 og stendur í klukkustund. Allir velkomnir meðan húsrúm leyfir.

Fyrri greinUndirritaðir samningar um stórt skátamót á Selfossi 2017
Næsta greinMikill þörf fyrir viðburði handa 50 ára og eldri