Sýningin Nautn opnuð í Listasafni Árnesinga

Hin ýmsu lögmál og birtingarmyndir nautnar eru útgangspunktur nýrrar sýningar sem opnar í Listasafni Árnesinga í Hveragerði næstkomandi laugardag. Sýningin ber heitið Nautn / Conspiracy of Pleasure.

Sex listamenn sýna ný verk, þar sem þeir fjalla um hugtakið, hver frá sínu sjónarhorni og forsendum, og efna til orðræðu um hlutverk nautnar í heimspekilegu, listrænu og veraldlegu samhengi. Í verkunum má sjá þráhyggjukenndar birtingarmyndir neysluhyggju og kynlífs í samtímanum, holdið í myndlistinni, mannslíkamann sem táknrænt fyrirbæri og innblástur eða einfaldlega hina frumstæðu nautn sem oft fylgir listsköpun, glímunni við efni og áferð, áráttu og blæti.

Hvar liggja mörkin á milli þess að leggja eðlilega og manneskjulega rækt við unað og ánægju annars vegar og hins vegar þess að gangast þessum eiginleikum hömlulaust á vald? Hvenær verður eitthvað að blæti? Hver er munurinn á munúð og ofgnótt, erótík og klámi, fegurð og kitsch, löngun og fíkn, metnaði og græðgi, háleitum markmiðum og firru? Og hver hefur vald til að setja fram þessar skilgreiningar?

Listamennirnir sem verk eiga á sýningunni eru Anna Hallin, Birgir Sigurðsson, Eygló Harðardóttir, Guðný Kristmannsdóttir, Helgi Hjaltalín Eyjólfsson og Jóhann Ludwig Torfason. Sýningin var sett upp í Listasafninu á Akureyri síðast liðið sumar þar sem hún vakti verðskuldaða athygli og er nú sett upp í Listasafni Árnesinga lítilega breytt. Sýningin er samstarfsverkefni listasafnanna og sýningarstjórar eru Hlynur Hallsson safnstjóri Listasafnsins á Akureyri og Inga Jónsdóttir safnstjóri Listasafns Árnesinga. Í sýningarskrá sem gefin er út með sýningunni ritar Markús Þór Andrésson. Við opnunina mun Birgir Sigurðsson flytja gjörning.

Sýningin Nautn / Conspiracy of Pleasure mun standa til og með 11. desember á þessu ári en þegar safnið verður opnað á ný eftir jólahlé, 12. janúar 2017 verður sýningin áfram á dagskrá til 26. mars 2017. Aðgangur að safninu er ókeypis og allir velkomnir – líka á opnun sýningarinnar.

Fyrri greinSér talsvert á framkvæmda-svæðinu innan friðlandsins
Næsta grein„Stóra buffmálið“ leyst með lopahúfu