Fyrsta skáldsaga Ásdísar

Á föstudag sendir Ásdís Thoroddsen frá sér sína fyrstu bók, liðlega 360 síðna skáldsögu sem ber nafnið „Utan þjónustusvæðis – krónika“. Útgefandi er bókaútgáfan Sæmundur á Selfossi.

Af þessu tilefni verður efnt til fagnaðar í Eymundsson á Skólavörðustíg kl. 17, föstudaginn 16. september. Rautt, hvítt og glært – upplestur og mikið fjör.

Utan þjónustusvæðis lýsir mannlífi í litlum byggðarkjarna við sjávarsíðuna þar sem margslungin bönd tengja sveitungana. Blóðbönd, bróðerni og kviðmægðir spinna fínan þráð sem fljótlega verður að spjörum á síprjónandi tungum íbúanna. Mitt í þessari flækju situr sambýliskona skólastjórans, Heiður Gyðudóttir.

Í þessum sambandslausa firði reynir hún að ná til nemenda skólans. En eftir því sem Heiður brýst hatrammlegar um í viðjum vanans, þeim mun frekar rofnar sambandið við raunveruleikann. Þögnin þrengir að henni eins og þokan, og þeir sem eitthvað segja tala tungum.

Höfundur snýr hér þráð úr þeim gamla og nýja tíma sem standa samhliða í stað í íslenskri sveit. Fólksfækkun og framtaksleysi fléttast hér saman við hrun og innflutt vinnuafl.

Ásdís Thoroddsen leikstjóri og kvikmyndaframleiðandi hefur skrifað fjölda handrita fyrir styttri og lengri kvikmyndir og þætti – en haslar sér nú í fyrsta sinn völl í klassískum sagnaskáldskap.

Fyrri greinÞórsarar sigruðu á Icelandic Glacial mótinu
Næsta greinSöguganga á Eyrarbakka